Út skal illt blóð.

Greinar

Sláturtíðin er hafin í Sjálfstæðisflokknum. Nú telur flokkseigendafélagið sig loksins hafa nægan styrk til að láta sverfa til stáls og losa flokkinn við hið illa blóð, sem allt of lengi hafi fengið að renna um æðar hans.

Embættismenn flokksins hafa reiknað niðurstöður kosninga til landsfundar og telja þær flokkseigendum hagstæðar. Ekki sé þar að vísu blóðþyrstur meirihluti, en nógu margir þó, sem reynast muni forustunni tryggir á örlagastund.

Fræg Morgunblaðsgrein Gísla Jónssonar menntaskólakennara er bezta dæmið um þá spennu, sem hefur hlaðizt upp í tíð núverandi ríkisstjórnar. Greinin minnti á vestfirzka píslarsögu frá galdraöld, svo geigvænlegur var Óvinurinn.

Hin vanstillta grein sýnir vel, hversu djúpt hatrið er orðið á Gunnari Thoroddsen og öllum hans árum, Albert Guðmundssyni og öllum hans árum. Og hún fékk auðvitað þann viðhafnarsess og það viðhafnarform, sem blaðinu þótti hæfa.

Jafnframt hefur ríkisstyrkt málgagn flokkseigendafélagsins fikrað sig út í ritbann á greinum frá sumum þeim sálum, sem leiðzt hafa til fylgis við Óvininn mikla og vilja halda uppi vörnum fyrir hans svarta og synduga atferli.

Sigurður Hafstein er látinn setja fram tillögur um framhald hinna opnu prófkjara, sem tíðkazt hafa í Sjálfstæðisflokknum, svona til að búa til logn fyrir storminn, sem varð svo á fundi fulltrúaráðsins í Reykjavík.

Fundardaginn birtist í viðhafnarsæti og viðhafnarformi málgagns rétttrúaðra grein Jónasar Elíassonar um lokun prófkjara. Og síðan kom Sigurður á fundinn með skrifaða ræðu um hin illu áhrif eigin tillögu um opið prófkjör.

Reiði réttlætisins beinist ekki aðeins að Óvininum og árum hans, heldur öllum þeim, sem í óviðurkvæmilegu léttlyndi hafa látið undir höfuð leggjast að þylja heitstrengingar á hverjum morgni, – að hinum veiklunduðu meðreiðarsveinum.

Friðrik Sófusson er ekki talinn hafa verið nógu skeleggur gegn hinu illa og Guðmundur Karlsson er grunaður um fylgi við Friðrik. Hinni heilögu reiði hefur lostið niður og hún brennt fjárveitinganefndarstól Guðmundar.

Hinir veiklunduðu sjá nú ritað á vegginn, að pólitískir dagar þeirra kunni einnig að vera taldir, ef þeir ekki sjái að sér, geri iðrun og yfirbót og fari að þylja píslarsögur Gísla Jónssonar og Halldórs Blöndal á hverju kvöldi.

Árarnir illu skulu úr flokknum. Þeir mega gjarnan rotta sig saman um sérstök framboð, beint eða óbeint undir sjálfstæðisnafni. Aðalatriðið er, að þeir eru “að minnsta kosti miklu minni sjálfstæðismenn” eins og Matthías Bjarnason orðar það.

Hið hreina orð má ekki litast af villutrúarsetningum. Sjálfstæðisflokkurinn má minnka, því að reikull fjöldinn skiptir minna máli en hin hreina hjörð stuðningsmanna flokkseigenda undir merki leiftursóknar.

Sumir efasemdarmenn flokksins munu nú beygja sig undir vald flokkseigenda, – með það að leiðarljósi, að flokkurinn sé langur, en flokkseigendafélagið stutt, og að friður sláturtíðar sé betri en enginn friður.

Aðrir munu gæla við áhættuna af sérstökum framboðum, haldnir ótta við, að sagan hafi lítið dálæti á slíku og láti þau stundum fjara út í tímans rás. Það er einmitt útkoman, sem flokkseigendafélagið reiknar með.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið