Utan og ofan veruleikans.

Greinar

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á bændum,” sagði talsmaður landbúnaðarins á blaðamannafundi, þar sem hann reyndi að útskýra, af hverju landbúnaðarvörur þurfa að hækka um 22-33% meðan laun hækka um 8%.

Launþegar og neytendur telja margt fleira “ógerlegt” en þetta eitt, en þeir hafa ekki sama vald og talsmaður landbúnaðarins hefur, með starfsmann landbúnaðarráðuneytisins sér á aðra hlið og Torfa Ásgeirsson sem “fulltrúa neytenda” sér á hina.

Launþegar og neytendur telja fleiri en bændur hafa orðið fyrir “áorðnum hækkunum” á síðustu þremur mánuðum. Og ofan á þau 22% hefur nú bætzt enn ein “áorðin,’ hækkun, sem felst í 22-33% hækkun á verði landbúnaðarafurða.

En launþegar og neytendur hafa ekki sömu stöðu í kerfinu og landbúnaðurinn. Þeir verða að sæta Torfa Ásgeirssyni, sem enginn kannast við, að launþegar eða neytendur hafi valið til að gæta hagsmuna sinna gegn úlfum kerfisins.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á launþegum,” gæti forseti Alþýðusambandsins reynt að segja. En slík skoðun utan úr bæ hefur ekki ákvörðunargildi eins og tilskipanir talsmanns landbúnaðarins hafa.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á neytendum,” gæti formaður Neytendasamtakanna reynt að segja. En slík skoðun utan úr bæ hefur ekki ákvörðunargildi eins og tilskipanir talsmanns landbúnaðarins hafa.

Sá valdamikli maður veit líka, að fleira er “ógerlegt” en frávik frá ýtrustu verðhækkunum einokunarafurða landbúnaðarins. En þau “ógerlegu” atriði varða öll hagsmuni kerfisins, sem myndað hefur verið um hinn hefðbundna landbúnað.

Það er til dæmis “ógerlegt” að leyfa í Reykjavík sölu á ódýrari jógúrt í betri umbúðum frá Húsavík, því að samkvæmt lögum hefur Mjólkursamsalan í Reykjavík einkarétt á að nauðga launþegum og neytendum á því svæði.

Það er einnig ,”ógerlegt” að leyfa frjálsa sölu á eggjum, því að eggjaverð, sem er lægra en “gerlegt” verð að mati landbúnaðarstjóra, er að mati þeirra ekki í þágu neytenda, svo sem þeir hafa rakið í löngu máli að undanförnu.

Það er einnig “ógerlegt” að leyfa frjálsa sölu á svínakjöti af sömu ástæðum. Því miður fyrir talsmanninn felldu svínabændur með eins atkvæðis meirihluta að níðast á neytendum á sama hátt og hinn hefðbundni landbúnaður gerir.

En það kemur dagur eftir þennan dag. Og talsmaður landbúnaðarins hefur auðvitað góðar vonir um, að svínabændur sýni sama félagsþroska og eggjabændur og falli í faðm hins sjálfvirka kerfis, þar sem allt óþægilegt er “ógerlegt”.

Það er ennfremur “ógerlegt” að selja neytendum aðrar kartöflur en smælki, af því að það er of smávaxið fyrir verksmiðjurnar, sem framleiða franskar kartöflur. Og ekki má flytja inn stórar kartöflur, meðan smælkið er ekki uppselt.

“Það er ógerlegt að láta þessar áorðnu hækkanir dynja á bændum,” er dæmigerð yfirlýsing úr lokuðu kerfi, sem ekkert tillit þarf að taka til umheimsins og telur raunar umheiminn hafa þann eina tilgang að þjónusta þetta kerfi.

Utan og ofan við veruleika íslenzks þjóðfélags er kerfi, sem fléttað hefur verið úr innflutningsbanni á búvörum, einokun á sölu þeirra og sjálfdæmi um verð. Því er leyft að “dynja” með ofurþunga á launþegum, neytendum og ekki sízt skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson.

DV