Samkvæmt áratuga gömlu samkomulagi tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna skal vera hermang í þessu landi. Samkvæmt þessu samkomulagi er þessa dagana verið að dreifa hundruðum milljóna til þeirra, sem fengu hlutabréf í hermanginu eða hafa erft þau.
Hluthafar hermangsins njóta þess núna, að stærsti hluthafi þess, Samband íslenzkra samvinnufélaga, er nánast gjaldþrota og þarf á reiðufé að halda. Þess vegna er ríkið að kaupa sig inn í hermangið og moka fé í hluthafana, sem fyrir eru. Þetta hefur ruggað bátnum.
Ef ríkið hefði ekki þurft að hjálpa Sambandinu, hefði hermangið fengið að dafna áfram hér eftir sem hingað til. Þetta er sérkennilegt hermang, sem fer fram fyrir opnum tjöldum, en ekki undir borðum. Því má segja, að kjósendur hafi sífellt verið að samþykkja það.
Árum og áratugum saman hafa kjósendur skellt skollaeyrum við kvörtunum í fjölmiðlum út af hermanginu í kringum Íslenzka aðalverktaka og Sameinaða verktaka. Engin pólitísk samstaða hefur myndazt um að þurrka þennan hórdómsblett af þjóðinni.
Spilling hermangsins felst fremur í öðru en dreifingu peninga til hluthafa. Rotið andrúmsloft hermangsins hefur spillt þjóðarsálinni. Hermangið hefur stuðlað að því ástandi, að menn hafa einkum þær áhyggjur af spillingu, að þeir fái ekki sjálfir aðgang að henni.
Stjórnendur hermangsfyrirtækjanna eru inni á gafli í stjórnmálunum. Þeir hafa viðurkennt, að þeir veiti peningum til stjórnmálaflokka. Og þeir bjóða ráðherrum til laxveiði, svo sem frægt er orðið. Ef hægt er að tala um kolkrabba í þjóðfélaginu, þá er það hermangið.
Langt er síðan farið var að benda á, að forkastanlegt sé hvers konar hermang og einkum þessi skipan hermangs á vegum forréttindastéttar. Umræðan kom með nýjum fjölmiðlum, sem ekki eru tengdir stjórnmálaflokkum. Tillögur til úrbóta eru margar og misgóðar.
Sumir hafa lagt til, að ríkið taki sjálft að sér að reka pútnahús Aðalverktaka og Sameinaðra verktaka, svo að gróðinn fari í sameiginlegan sjóð fremur en í vasa yfirstéttarinnar. Sá galli er á þessu, að þar með yrði ekki bara yfirstéttin, heldur þjóðin öll að gleðikonu.
Ef ríkið færi að reka pútnahúsin, mundi öfundin minnka, en spillingin blómstra áfram. Betra er að hætta hermangi yfirleitt og fara að bjóða verkefni varnarliðsins út á opnum og alþjóðlegum verktakamarkaði í samræmi við heilbrigðar siðsemisreglur markaðskerfisins.
Ef samkomulag er milli Bandaríkjanna og Íslands um, að fyrra ríkið borgi eins konar leigu fyrir aðstöðu sína hér á landi, er heiðarlegra að framkvæma slíkt með hlutdeild í gerð hernaðarlega mikilvægra samgöngutækja, svo sem flugvalla, vega og fjarskiptakerfa.
Við búum undir spilltri yfirstétt, sem lifir á ríkisverndaðri einokun á borð við hermangið eða á ríkisstuddri fáokun á borð við olíufélögin. Eitt merkasta óleysta verkefni kjósenda er að varpa þessari einokun og fáokun af herðum sér og lofta út í þjóðfélaginu.
Því miður er ástæða til að óttast, að reiði margra út af útborgunardegi í pútnahúsum varnarliðsins stafi ekki af því að þeir vilji lofta út, heldur séu þeir að öfundast út af því, að Jón erfingi skuli fá skattlausan happdrættisvinning, sem Jón arflausi fær ekki.
Það er kjósenda ákveða að afnema hermang og spillingu einokunar og fáokunar í þjóðfélaginu. Það verður ekki gert á grundvelli öfundar, heldur betra hugarfars.
Jónas Kristjánsson
DV