Úti að aka

Greinar

Þegar kostnaður við tíu ráðherrabíla er rúmlega tvöfalt hærri en allur rekstur Hæstaréttar og tvöfalt hærri en allur rekstur Fiskvinnsluskólans, er nauðsynlegt, að ríkisstjórnin taki mark á gagnrýni og lækki þennan kostnað. Hofmóður verður henni ekki til framdráttar.

Einna óþægilegasti þáttur málsins er sinnuleysi margra ráðherra fyrir kostnaði. Til dæmis hlýtur Sverrir Hermannsson að hafa sinn bílstjóra á vakt lungann úr tímanum, sem ráðherrann er vakandi. Öðruvísi kæmist bílstjórinn ekki í 78 þúsund króna mánaðarlaun.

Sumir þeir, sem eiga erindi við Alþingi, hafa furðað sig á, að þar bíða ráðherrabílstjórar klukkustundum saman eins og illa gerðir hlutir. Slíkt er leiðinlegt, bæði fyrir þá sjálfa og hina, sem á horfa. Auk þess truflar bílaflotinn umferð um Kirkjustræti.

Þar að auki nota sumir ráðherrar bílana til að bíða eftir sér meðan þeim dvelst á fundum og í heimsóknum á kvöldin. Í flestum tilvikum væri ódýrara fyrir ríkið að nota leigubíla við slíkar aðstæður fremur en að láta bílstjóra sína hanga á yfirvinnukaupi.

Ráðherrar, sem ekki nenna að hindra, að bílakostnaður þeirra verði tvöfaldur heildarkostnaður við rekstur Hæstaréttar eða Fiskvinnsluskólans, geta ekki haldið uppi fjárhagslegum aga í þjóðfélaginu. Gagnrýni Sverris á Lánasjóð námsmanna verður þá bara að fíflaskap.

Ráðherra, sem lætur gera ofsadýrar úttektir á rekstri margvíslegra stofnana og er nú að láta hefja úttekt á Lánasjóði námsmanna, aðeins ári eftir að annar ráðherra var búinn að gera það, á að líta í eigin barm, ef hann vill láta almenning taka mark á mannalátum sínum.

Þessi átakanlegi skortur á tilfinningu fyrir aðhaldi í rekstri er alvarlegasti þáttur málsins. Ráðherrar eru uppvísir að því að kunna ekki með peninga að fara. Fólk úti í bæ telur ólíklegt, að slíkir menn geti rekið pylsuvagn með hagnaði, hvað þá ríkissjóð eða þjóðfélag.

Hitt er svo rétt, að hversu lélegir, sem ráðherrar eru, er sanngjarnt, að þeir séu fluttir milli staða. Það mætti hins vegar gera á mun ódýrari hátt, til dæmis með því að nota leigubíla, að minnsta kosti utan venjulegs vinnutíma ráðherrabílstjóra.

Einnig má hugsa sér, að ráðherrarnir hafi eins konar ráðherrabílstöð, ef venjulegir leigubílar eru ekki nógu fínir. Þeir geti þá kallað til bíla eftir þörfum, en hafi ekki hver sinn bíl. Sameiginlegur bílafloti væri mun ódýrari en bíll og bílstjóri á mann eins og nú er.

Fordæmi ráðherranna spillir. Bankastjórar, sem eru orðnir töluvert fjölmennari en áður var, hafa áratugum saman talið sér heimil svonefnd ráðherrakjör á bílum. Fyrir löngu er kominn tími til að rjúfa þau tengsl og skipa bankastjórum svo sem tröppu neðar.

Um þessar mundir eru örðugar aðstæður í þjóðfélaginu. Ýmis dæmi ganga illa upp. Fyrirtæki tapa peningum og draga saman seglin á sama tíma og starfsmenn þeirra sæta því, að léleg kjöri versni enn. Óhóf og aðgæzluleysi ráðherra er olía á þann eld.

Ríkisstjórnin hefði meiri sóma af að taka bílamál sín enn harðari tökum en hún hefur tekið kostnað stofnana á borð við lánasjóðinn, rafmagnsveiturnar og vitamálin, svo að kunn dæmi séu nefnd. Hún á að byrja á sjálfri sér, svo að tekið sé mark á henni.

Nú er réttilega haft að háði, að ríkisstjórnin sé úti að aka, einnig bókstaflega. Því þarf að breyta.

Jónas Kristjánsson

DV