Útsala á orku

Greinar

Komið hefur í ljós, hvers vegna Landsvirkjun vill ekki segja frá orkuverðinu, sem samdist um við Alusuisse-Lonza vegna fyrirhugaðrar stækkunar Ísals. Það stafar einfaldlega af, að Landsvirkjun skammast sín fyrir orkuverðið, sem er um 10 mills á kílóvattstundina.

Þetta útsöluverð Landsvirkjunar á raforku þýðir, að næstu sjö árin mun þjóðin niðurgreiða um það bil helminginn af verði orkunnar, sem Ísal fær. Það kostar nefnilega upp undir 20 mills að framleiða hana. Eftir þessi sjö ár mun orkuverðið síðan færast í þolanlegra horf.

Útsöluverðið á raforku er engan veginn alvont, því að það er breyting til batnaðar frá núverandi ástandi, er þjóðin greiðir ein fyrir umframorkuna frá Blöndu. Það er skárra að búa við hálfan skaða í sjö ár en allan skaðann, úr því að orkuverið stendur þarna fullbúið.

Sala á niðurgreiddri orku er ekki eina hlið málsins, en það er sú hlið, sem snertir Landsvirkjun. Þjóðin hefur þar fyrir utan margvíslegt gagn af stækkun álversins, svo sem tímabundna þenslu í atvinnulífinu og varanlega aukningu þjóðarframleiðslunnar um 0,7% á ári.

Þriðja hlið málsins má ekki heldur gleymast. Mengunarvarnir hins nýja hluta álversins verða svipaðar og eldri hlutanna, en ekki eins miklar og þær eru yfirleitt í nýlegum álverum á Vesturlöndum. Hálfgerður þriðja heims bragur er því á þessum þætti samkomulagsins.

Orkuverðið segir mikla sögu um samkeppnisstöðu Landsvirkjunar og Íslands. Til skamms tíma var óþarfa orkuverið við Blöndu varið með því, að það mundi gera okkar mönnum kleift að ná hagstæðum stóriðjusamningum, af því að orkan væri tilbúin til afhendingar.

Raunveruleikinn varð annar. Blönduvirkjun varð ekki tromp á hendi seljenda stóriðjuhugmynda, heldur myllusteinn um háls þeirra. Þeir náðu ekki í neina tilfallandi auðjöfra með heimilislaus álver undir hendinni og neyddust að lokum til að setja orkuna á rýmingarsölu.

Þessi niðurstaða ætti að vera einkar athyglisverð fyrir þá mörgu kjósendur, sem trúðu því á sínum tíma, að virkjun Blöndu væri hið bezta mál og að það væri fínt að eiga eitt afgangs orkuver til að grípa stóriðjugæsina. Þeir ættu nú að vita, að þeir voru hafðir að fífli.

Niðugreiðsla raforkunnar segir líka mikla sögu um stöðu Íslands á Vesturlöndum. Við erum og verðum frumframleiðsluþjóð, sem er í raun hluti þriðja heimsins, þótt góð tækni og framleiðni í sjávarútvegi hafi fært okkur ótryggar tekjur af vestrænni stærðargráðu.

Við slíkar aðstæður gera menn orkusamninga á borð við þann, sem gerður hefur verið um stækkunina í Straumsvík. Hann felur í sér játningu um, að Landsvirkjun og ríkið hafa verið rekin af slíku þriðja heims rugli, að viðsemjendur geti sjálfir valið sér orkuverð.

Það er nauðsynlegt, að menn átti sig á bláköldum raunveruleika orkuverðsins og fari loksins að læra af reynslunni, um leið og ástæða er til að fagna því, að loksins er hægt að eygja, að eftir sjö ár muni skattgreiðendur sleppa við að niðurgreiða orkuverið við Blöndu.

Að vísu munu afkomendur okkar ekki losna svona auðveldlega við afleiðingar ruglsins í valdhöfum lands og Landsvirkjunar. Afborganir skulda, sem stofnað var til vegna virkjunar Blöndu, munu halda áfram langt fram á næstu öld, afkomendum okkar til hrellingar.

Ekki er unnt að kenna orkuverðssamningnum um tjónið, sem varð, þegar orkuverið var reist. Hann er til bóta, af því að hann mildar timburmenn virkjunaræðisins.

Jónas Kristjánsson

DV