Þrír af hverjum tíu fulltrúum á landsfundi Alþýðubandalagsins studdu tillögu, sem var andstæð tillögunni um sameiginlegt framboð vinstri flokkanna í þingkosningunum að ári. Búast má við, að svona stór minnihluti muni láta að sér kveða á einhvern hátt.
Sumir minnihlutamenn munu sætta sig við að hafa lent í minnihluta og ekki segja skilið við meirihlutann, enda gerir lýðræði ráð fyrir, að minnihlutar beygi sig. Aðrir munu ekki telja sig geta verið áfram á báti með meirihluta, sem hafi gerbreytt forsendum aðildar.
Stuðningur við sameiginlegt framboð er eindregnastur meðal ungra flokksmanna í þéttbýlinu og baráttufólks stéttarfélaga í einkageiranum. Þessi tvö öfl hafa löngum reynt að knýja fram þá niðurstöðu, sem hafði sigur á landsfundi Alþýðubandalagsins um helgina.
Sameiningarsinnar stefna að flokki, sem minnir á brezka Verkamannaflokkinn og krataflokka víðs vegar um Norður- og Vestur-Evrópu. Slíkur flokkur hentar ekki hluta af fylgismönnum Alþýðubandalagsins, sem munu leita pólitískrar útrásar utan hans.
Fylgismenn núverandi gjafakvótakerfis í sjávarútvegi, einkum á Norðausturlandi og Austfjörðum vilja ekki taka þátt í flokki, sem telur kerfið siðlaust og vill ná auðlindinni úr höndum úrgerðarmanna. Kvótasinnar munu fylkja sér um nýjan flokk Steingríms J. Sigfússonar.
Auðvelt verður fyrir þetta fólk að ná sambandi við fylgismenn ríkisrekna kvótakerfisins í landbúnaði, sem vilja ekki efla framgang hugmynda Alþýðuflokksins á því sviði. Þannig verður hægt að mynda varnarbandalag um ríkjandi hagsmuni í fiskveiðum og landbúnaði.
Steingrímur er sjálfkjörinn foringi þessara hópa, enda mun hann þar á ofan ná til gömlu kommanna, sem enn eru á móti Atlantshafsbandalaginu og jafnvel Evrópusambandinu. Úr öllu þessu verður heilsteyptur íhaldsflokkur, sem uppnefndur verður vaðmálsflokkur.
Víða um Evrópu eru áhrifalitlir flokkar af slíku tagi á jaðri stjórnmálanna. Á jaðrinum eru líka flokkar græningja, sem ekki hafa fundið samleið með krataflokkum Evrópu. Hjörleifur Guttormsson er sjálfkjörinn leiðtogi slíks flokks hér á landi, ef hann kærir sig um.
Þótt ekki sé augljóst samhengi milli vaðmálssinna og græningja, er ekkert sem bannar, að málsaðilar geti búið til hagkvæmnisbandalag um einn jaðarflokk, sem héldi uppi vörnum fyrir allt gamalt og gróið, náttúruna, bændurna, útgerðarmennina og einangrun landsins.
Steingrímur og Hjörleifur hafa hvor sitt bakland, sem þeir gætu samnýtt. Óljósara er bakland þriðja uppreisnarmannsins, Ögmundar Jónassonar, formanns opinberra starfsmanna. Ekki hafa sézt nein merki þess, að opinberir starfsmenn vilji hlíta pólitískri leiðsögn hans.
Ögmundur er hins vegar fulltrúi þeirra sjónarmiða, að betra sé að hafa lítinn flokk með skýrar línur en stóran flokk með óskýrar línur. Hann gæti lagt með sér eitthvert þéttbýlisfylgi hreintrúarmanna, sem sætta sig ekki við hina nýju breiðtrúarstefnu meirihlutans.
Smám saman mun koma í ljós, hvort hinar ýmsu tegundir óánægju ná saman og hversu sterkt afl þær verða sameiginlega eða hver í sínu lagi. Það ræðst raunar mest af því, hversu sannfærandi framhaldið á ferli meirihlutans í yfirvofandi A-flokka samstarfi verður.
Frumkvæðið er að því leyti enn í höndum meirihlutans, að gengi minnihlutans mun á næstu mánuðum ráðast mest af því, hvernig meirihlutanum tekst til.
Jónas Kristjánsson
DV