Lengi skrifaði ég blaðagreinar um veitingahús og stundum um ýmis borðvín, sem hér fengust á þeim tíma. Aldrei datt neinum í hug, að hagsmunaaðilar skyldu greiða fyrir þessar greinar, né heldur, að út á þær gæti fengizt ókeypis matur á veitingahúsum og ókeypis flöskur í Ríkinu. Þetta var veitingarýni og borðvínarýni eins og hver önnur menningarrýni í fjölmiðlum þess tíma.
Nú er öldin önnur. Deilt er um, hvers vegna bókaforleggjarar töldu, að Stöð 2 væri að bjóða vinsamlega bókadóma fyrir peninga. Hvað svo sem rétt er í því máli, er næsta ljóst, að markaðsfólk á Stöð 2 hefur keyrt út af hættulegu spori, sem lengi hefur verið kallað “kostun” í ljósvakamiðlum.
Kostun í ljósvakamiðlun var upphaflega hugsuð sem gegnsæ og kynnt sem slík fyrir sjónvarpsþætti og eftir þá. Síðan virðist spilling græðgisaldar hafa grafið um sig bæði þar og í prentmiðlum, svo að nú er komin til sögunnar leynd kostun. Sem dæmi um það má nefna, að innflytjendur borðvína greiða fjölmiðlum fyrir víngreinar, án þess að notendur fjölmiðla fái að vita af því.
Talsmenn vínumboða hafa upplýst, að greitt sé fyrir vínkynningu í morgunsjónvarpi Stöðvar 2, í tveimur fylgiritum Morgunblaðsins, á matarsíðum Fréttablaðsins og hafi raunar lengi viðgengist á tímaritum á borð við Gestgjafann, Vikuna og Mannlíf. Vændið hefur verið undir borði, en uppi á borði er það látið líta út sem heiðarlegt fræðsluefni fyrir neytendur.
Að svo miklu leyti sem þetta vændi er stundað í ljósvakamiðlum, stríðir það gegn útvarpslögum, sem segja, að kostun skuli vera uppi á borðinu, öllum sýnileg. Það stríðir einnig gegn opinberum siðareglum Fréttablaðsins, sem settar voru fyrir hálfu öðru ári samkvæmt fyrirmyndum frá Guardian og víðar. Þar segir, að skýra skuli í textanum frá allri kostun og fyrirgreiðslum af hálfu hagsmunaaðila.
Á 20. öld myndaðist sú hefð í vestrænum fjölmiðlum, að fréttir séu aðskildar frá skoðunum og hvort tveggja aðskilið frá auglýsingum. Þessari hefð hefur verið fylgt áratugum saman á góðum fjölmiðlum. Hún er enn þann dag í dag kennd í fjölmiðlun á háskólastigi hvar sem er á Vesturlöndum. Siðareglur góðra fjölmiðla hafa þennan aðskilnað að hornsteini.
Seint á síðustu öld fóru sjónarmið kostunar og kynningar að grafa um sig í fjölmiðlum. Fundið var upp, að áróður sölumanna feli í sér upplýsingar fyrir neytendur. Eðlilegt sé að kynna vörur, svo að fólk viti, hvað sé á boðstólum. Þetta var fyrst afsakað með, að kynnt sé á undan og eftir, hvernig í pottinn sé búið.
Á nýrri græðgisöld hafa girðingar rifnað. Ekki er lengur hægt að treysta efni fjölmiðla. Ekki er hægt er að sjá, hvað er birt í þágu gjafmildra sölumanna og hvað er birt í þágu áhorfenda, hlustenda og lesenda. Gegnsæið er horfið og yfir vötnum grúfir þoka blekkinga og vantrausts. Þetta hefur gerzt í von um, að notendur fjölmiðlanna kæri sig kollótta.
Við skulum ekki fara neitt í felur með eðli breytingarinnar. Dulin kynning og kostun felur í sér eina tegund af vændi, fjölmiðlavændi. Í trássi við lög og siðareglur, menntun og hefðir hafa blaðamenn og útgefendur gerzt hórur.
Jónas Kristjánsson
DV