Verð hlutabréfa var til skamms tíma metið eftir formúlum um hlutföll stærða, sem koma fram í ársreikningum fyrirtækjanna. Reiknað var með, að rekstur þeirra, einkum hlutföll hagnaðar og hlutafjár, segðu til um, hversu góður fjárfestingarkostur þau væru.
Í nokkur ár hefur þetta ekki nægt, því að reynslan sýnir, að betra er að miða við væntanlegan rekstur en undanfarinn rekstur. Fyrirtæki rísa og hníga. Þau eru misjafnlega vel staðsett til að mæta aðstæðum, sem verða á þeim tíma, þegar fjárfestingin á að skila arði.
Þess vegna hafa menn fjárfest í áhættusömum framtíðarfyrirtækjum á borð við netvafrafyrirtækið Netscape, netbókaverzlunina Amazon og netþjónustuna America Online. Og þess vegna hafa menn fjárfest hér á landi í fyrirtækjum á borð við DeCode Genetics.
Á skömmum tíma hefur komið í ljós, að ekki nægir að spá um framtíðarhag þessara fyrirtækja, heldur verða fjárfestar fremur að gera sér grein fyrir væntingum þeirra fjárfesta, sem á eftir þeim koma. Spurningin er, á hvaða verði munu þeir síðar kaupa bréfin mín.
Væntingar síðbúinna fjárfesta eru reikningsdæmið, sem hefur tekið við af reikningsdæminu um tekjur og gjöld í ársreikningum. Þannig kemst verðgildi fyrirtækja langt upp fyrir ítrustu væntingar um gengi fyrirtækjanna sjálfra í náinni eða fjarlægri framtíð.
Hlutabréf í Amazon voru til skamms tíma á stjarnfræðilegu verði, þótt fyrirtækið hefði frá upphafi verið og er enn rekið með himinháu tapi, sem fyrirsjáanlegt er, að fari fremur vaxandi en minnkandi í framtíðinni. Menn fjárfestu í væntingum síðbúinna fjárfesta.
Til þess að fá sómasamlegan arð af hlutabréfum, sem nú eru seld í DeCode, sem er verðlagt á 135 milljarða króna, þarf fyrirtækið að hafa tíu milljarða króna arð á ári frá þeim degi, sem bréfin eru keypt. Fyrirtækið er hins vegar rekið með gífurlegu tapi.
Menn kaupa ekki hlutabréf í DeCode á grundvelli arðsins eða tapsins, heldur á grundvelli væntinga sinna um væntingar síðbúinna fjárfesta, sem muni að lokum eignast pappírana. Þetta er afar flókin hugsun, sem tæpast er á færi nema harðskeyttra pókerspilara.
Þessi hlutabréfaleikur hefur þjóðhagslegt gildi, því að hann sogar sparifé til nútímalegra atvinnugreina, þar sem vísindi og rannsóknir, tölvutækni og veftækni eru í fyrirrúmi. Þessar atvinnugreinar ættu erfitt uppdráttar, ef fagfjárfestar væru enn að fletta ársskýrslum.
Þar sem meirihluti áhættufyrirtækja nær hvorki stóra vinningnum né getur teflt sér í þá stöðu að vera gleypt af öðru áhættufyrirtæki, glata margir fjárfestingu sinni. Það er herkostnaðurinn við tilfærslu fjármuna úr gamaldags farvegum yfir í hátæknifarvegi nútímans.
Fólk á undir engum kringumstæðum að taka lán til að kaupa hlutabréf í slíkum tízkufyrirtækjum, sem hafa gert aðra moldríka. Það á ekki heldur að fórna sparnaði til elliáranna í sama skyni. Það á eingöngu að nota til þess peninga, sem það getur sætt sig við að glata.
Fjárfesting í áhættusömum töfrafyrirtækjum er fyrst og fremst verkefni atvinnumanna, sem kunna að reikna út væntingar síðbúinna fjárfesta og hafa vita á að losa sig við pappíranna eða selja fyrirtækið á réttu andartaki. Nútíma hlutabréfaviðskipti minna á keðjubréf.
Við munum fljótt reka okkur á, að það er skammgóður vermir að telja allt munu endalaust rísa, einnig verðgildi bréfanna, sem risu brattast í gær og í fyrradag.
Jónas Kristjánsson
DV