Vafasöm kenning í nýjum söguatlas

Punktar

SKÓGUR VIÐ LANDNÁM á Íslandi var ekki nema þriðjungur af því, sem hingað til hefur verið haldið, 8.000 ferkílómetrar, en ekki 25.000 ferkílómetrar, segir landfræðingurinn Rannveig Ólafsdóttir. Er þá miðað við tveggja metra hátt birki.

ÞEGAR BYLTING verður í fræðilegum kenningum, er eðlilegt, að aðrir fræðimenn leggi í púkkið, segi kost og löst á hinum nýju kenningum. Þannig hefur Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður rannsóknastöðvar skógræktarinnar að Mógilsá, gagnrýnt kenningar Rannveigar málefnalega.

ORÐIÐ HEIÐI gegnir lykilhlutverki í kenningum þeirra, sem telja, að skógar hafi verið útbreiddir í fornöld og svæði verið nefnd heiði, sem þýðir upprunalega skógur. Fornleifagröftur sýnir líka, að gert var til kola á Kili, sem varla hefur verið hægt, ef ekki var þar skógur á staðnum.

NÝR SÖGUATLAS Máls og menningar virðist ekki þurfa að bíða eftir fræðilegri umfjöllun um nýstárlega kenningu, sem greinilega er götótt. Í hinum nýja atlas er kenning Rannveigar gerð að heilögum sannleika og sett á kort.

FORKASTANLEG VINNUBRÖGÐ eru þar á ferð. Hlutverk söguatlass er að setja fram viðurkennd vísindi, en ekki að kasta fram fullyrðingum, sem ekki hafa fengið fræðilega umfjöllun eða hafa fengið neikvæða umfjöllun fræðimanna.

DV