Valdshyggja í sandkassa

Greinar

Sverrir Hermannsson bankastjóri sagði hróðugur, að bankarnir hefðu “niðurlægt” ríkisstjórnina, en Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra sagði hreykinn, að ríkisstjórnin hefði hrundið “atlögu” bankanna. Báðir voru að tala um sama hlutinn, hækkun vaxta um 1­2%.

“Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn” er það, sem þessir tveir valdamenn þurftu helzt að koma á framfæri eftir vaxtahækkunina. Hugarfarið að baki ummælanna er dæmigert um sandkassa-valdshyggju, sem er smám saman að ná undirtökum í stjórnmálunum.

Fjármálaráðherrann virðist líta á sig sem annað og meira en gjaldkera ríkisstjórnarinnar. Hann telur sig settan yfir öll fjármál þjóðarinnar, alveg eins og í Sovét ríkjunum fyrir tíma Gorbatsjovs. Hvað eftir annað hótar hann að misbeita ráðherravaldi til að beygja aðra.

Með innreið þjóðarleiðtoga á borð við Ólaf Ragnar Grímsson er verið að fjarlægjast hið lýðræðislega kerfi fjölmargra valdamiðstöðva og stefna að söfnun valds í eina hönd. Viðhorf hans eiga mikinn hljómgrunn, því að margir vilja líta á þjóðina sem eitt fyrirtæki.

Við höfum miklu meiri en næg vandamál af miðstýringunni, sem fyrir er, þótt hún sé nú ekki enn aukin. Við sjáum í ótal dæmum, að allt vald spillir. Þau eru daglega rakin í fjölmiðlum. Og margsönnuð sagnfræðiformúla segir, að allt gerræðisvald gerspillir.

Þjóðin þarf að átta sig á, að stjórnarfar verður ekki því betra, sem það er öflugra, sýnilegra og fyrirferðarmeira. Hvergi í heiminum er landsmálum betur stjórnað en í Sviss. En þar fer svo lítið fyrir ríkisstjórninni, að menn vita varla, hvað ráðherrarnir heita.

Lao Tse sagði, að sú ríkisstjórn væri bezt, sem léti fólkið í landinu í friði. Þau sannindi eru enn í fullu gildi. Ef ríkisstjórn er afskiptalítil um hagi fólks, hefur það tíma til að rækta garðinn sinn og græða fyrir sína hönd og þjóðarinnar í heild. Eins og þeir í Sviss.

Hér erum við hins vegar á hraðri leið til miðstýringar, þegar flestir aðrir, þar á meðal Sovétmenn, eru að hverfa frá henni. Hvert nýtt kerfi kvóta, búmarks, fullvinnsluréttar og útflutningsleyfa kallar á ný vandamál, sem leyst eru með flóknari kerfum og meiri vandræðum.

Hér stefna flestir þjóðarleiðtogar að söfnun valds í sínar eigin hendur. Þeir velta til dæmis vöngum yfir, hvaða fyrirtæki skuli fá að lifa og hvaða fyrirtæki skuli deyja. Þeir hafa tekið að sér að leika hlutverk guðs í þjóðfélaginu. Og þeir ímynda sér, að slíkt sé í lagi.

Skemmtilegasta iðja hinnar nýju kynslóðar stjórnmálamanna er þó ekki sú, að kássast í annarra manna högum. Þeir blakta mest, þegar þeir geta búið sér til sandkassa eða leikvöll úti á torgi, þar sem þeir geta safnað saman áhorfendum að pólitískum burtreiðum.

Leiksýningar stjórnmálamanna fara nú sigurför um landið. Þar standa þjóðarleiðtogarnir eins og hanar á haug, sperra sig og baða sig í sólskini fimmaurabrandara og leikrænna orðaskipta, alveg eins og slíkir gerðu í kappræðum í gagnfræðaskóla fyrir ótalmörgum árum.

Þetta væri í lagi, ef þetta væri bara ódýrt leikhús. En stjórnmálamenn nútímans heimta annað og meira en óskipta athygli þjóðarinnar í samkomuhúsum og fjölmiðlum. Þeir heimta að fá að skipa högum allra manna eins og guðfeður í bandarískum mafíu-bíómyndum.

En hættulegust er valdshyggju-hagfræði formanna stjórnarflokkanna þriggja fyrir þá sök, að mikill fjöldi kjósenda er reiðubúinn til að samþykkja hana og þola.

Jónas Kristjánsson

DV