Valdshyggju-fordæmi

Greinar

Fáheyrt er, ef ekki einsdæmi, á síðustu áratugum, að ráðherra reki banka- eða sjóðstjóra fyrirvaralítið úr starfi. Með brottrekstri framkvæmdastjóra Lánasjóðs námsmanna hefur menntamálaráðherra skapað hættulegt fordæmi öðrum valdshyggjumönnum, sem síðar koma.

Eðlilegt hefði verið, að ráðherrann beindi til stjórnar sjóðsins kröfum sínum um lagfæringar. Eftir að slíkar tilraunir hefðu reynzt árangurslausar, gæti ráðherra að því gefna tilefni skipt um meirihluta stjórnar.

Hinn nýi stjórnarmeirihluti gæti þá rekið sjóðstjóra, sem reynzt hefði ófær um að verða við kröfum ráðherrans og stjórnarinnar. Þá væri líka búið að reisa mál með ýmsum sönnunargögnum, sem nú eru ekki til.

Auðvelt ætti að vera að afla gagna um, að Lánasjóður námsmanna sé illa rekinn banki. Réttast væri að segja, að hann sé rekinn á flókinn hátt og búi til óþarflega mikið umstang. Reksturinn ætti samt að vera einfaldur, af því að lánveitingar eru næstum sjálfvirkar.

Sumpart eru vinnubrögð í sjóðnum einkar fornaldarleg. Að öðrum þætti hafa þau verið tölvuvædd á þann hátt, að útskriftir, sem viðskiptamönnum eru sendar, eru öllum gersamlega óskiljanlegar. Af því skapast gífurlegt álag á símakerfi og afgreiðsluborð sjóðsins.

Þetta kallar á óhæfilega mikið starfslið og óhæfilega mikla yfirvinnu þess. Þetta gerir Lánasjóð námsmanna of dýran í rekstri og bakar viðskiptamönnum hans of mikla fyrirhöfn. Þetta þarf að laga skjótlega, jafnvel þótt ekki sé farið eins að því og ráðherrann gerði.

Slæmur rekstur sjóðsins hefur hins vegar sáralítil áhrif á slæma afkomu hans. Veltan er orðin svo hrikaleg, að laun og yfirvinna skipta þar sáralitlu máli. Ekki er hægt að kenna sjóðstjóranum um, að námsmönnum hefur fjölgað meira en peningum hins opinbera.

Samt er rétt hjá Sverri ráðherra, að forkastanlegt er, ef sjóðstjóri hefur ekki í tæka tíð nokkuð góða hugmynd um, hvert stefni í þessu efni. Vitað er, hversu margir útskrifast úr menntaskólum og öðrum hliðstæðum skólum. Þær upplýsingar má nota jafnóðum.

Ófært er, ef ráðherra fær því sem næst mánaðarlega nýjar hryllingsfréttir af aukinni fjárþörf. Enn sem komið er lifir sjóðurinn að mestu leyti á ríkissjóði, sem á að fara eftir fjárlögum hvers árs. Það setur allan ríkisbúskapinn úr skorðum, ef veita þarf fé aukalega.

Sökin á þessu liggur þó að mestum hluta hjá ríkisstjórninni sjálfri og stjórnarflokkunum. Þessir aðilar ganga árlega frá fjárlögum, þar sem varið er mun minna fé til Lánasjóðs námsmanna en þarf samkvæmt gildandi lögum. Þeir, sem reyna að búa til hallalaus fjárlög á þennan hátt, þurfa ekki að verða hissa á bakreikningum.

Nú getur vel verið, að tiltölulega hægar endurgreiðslur í sjóðinn og mikil fjölgun námsmanna leiði til þess, að ríkið hafi ekki efni á að fara eftir gildandi lögum. Ef svo er, þá er rétta leiðin að breyta lögum um sjóðinn.

Við slíkt samræmi mundu námsmenn og aðstandendur þeirra vita, að hverju þeir ganga og það langt fram í tímann. Þessir aðilar þurfa nú að bíða milli vonar og ótta nokkrum sinnum á ári, af því að ríkisvaldið getur ekki komið á samræmi milli laga og fjármagns.

Skynsamlegra hefði verið hjá ráðherra að einbeita sér að slíkri samræmingu, samhliða skynvæðingu í rekstri sjóðsins, í stað þess að haga sér eins og valdshyggjumaður, öðrum slíkum til illrar eftirbreytni í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV