Vel og snaggaralega gert hjá Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra að senda 472 sæta vél til Damaskus að sækja Íslendinga og aðra Norðurlandabúa vegna loftárása Ísraels á Beirút. Of sjaldan heyri ég, að ráðuneytið komi Íslendingum að gagni í útlöndum. Enn sjaldnar heyri ég, að Valgerður komi þjóðinni að gagni, en einu sinni verður allt fyrst. Sá hængur er á málinu, að Norðmenn vildu ekki sjá Íslendinga í rútunum frá Beirút til Damaskus, svo að Íslendingar verða að fara með Finnum degi síðar. Vonandi bíður flugvélin eftir Íslendingunum frá Beirút.