Forustumenn samtaka launafólks reyna að fóta sig á hálum ís óvenju langvinnra viðræðna um nýja kjarasamninga. Stundum tala þeir um, að bæta verði lífskjörin, en oftar þó um, að gera þurfi ráðstafanir til að tryggja atvinnuöryggi starfsfólks í helztu hallærisgreinum.
Forustumenn atvinnurekenda eiga þægilegri daga. Þeir endurtaka bara í síbylju, að ekki megi raska neinu; ekki hækka kaupið hjá fólki; ekki lækka gengi; ekki gera neitt, sem hækki verðbólgu og komi í veg fyrir, að vextir atvinnulífsins geti haldið áfram að lækka.
Sá sannleikur felst í síbylju atvinnurekenda, að öryggi og lífskjör hneigjast til að stangast á. Lífskjör batna í kjölfar þess, að hallærisfyrirtæki og hallærisatvinnugreinar fara á hausinn og rýma til fyrir fyrirtækjum, sem horfa til framtíðar og geta borgað betri laun.
Um leið missir fólk atvinnu í röskuninni, sem fylgir uppstokkun af þessu tagi. Það fólk á oft erfitt með að fá vinnu í nýjum framtíðargreinum, ýmist vegna aldurs eða skorts á þekkingu; jafnvel þótt samhliða sé skortur á starfskröftum í nýjum greinum, sem borga betur.
Vinnuveitendasambandið er talsmaður hins ríkjandi ástands, hvert sem það er á hverjum tíma. Það vill ekki, að fyrirtæki, sem standa að sambandinu, fari á hausinn. Það vill, að verðbólgan hverfi, vextirnir lækki, gengið haldist og að starfsfólk hafi óbreytt lífskjör.
Sumpart nýtur sambandið stuðnings samtaka launafólks. Verkamannasambandið hefur hvatt til banns við útflutningi á arðbærum ferskfiski til að varðveita láglaunastörf í óarðbærum fiskvinnslustöðvum, jafnvel þótt verðgildi fisks minnki við að fara um stöðvarnar.
Aðilar vinnumarkaðsins hafa enga lausn á þeim vanda, sem felst í, að varðveizla ríkjandi ástands leiðir til lakari lífskjara og óarðbærra fyrirtækja og síðan til samdráttar, sem felur í sér aukið atvinnuleysi. Þetta óhagstæða ferli er í fullum gangi fyrir allra augum.
Að svo miklu leyti sem starfsemi er í sjálfu sér arðbær, leggst hún ekki niður, þótt fyrirtæki fari á hausinn og til skjalanna komi hæfari eigendur með minni fjármagnskostnað. Að svo miklu leyti sem hún er óarðbær, er gott, að hún leggist niður og rými fyrir annarri betri.
Aðilar vinnumarkaðarins, svo og ríkisstjórn og kjósendur eiga erfitt með að horfast í augu við þetta. Dæmi um það er hinn hefðbundni landbúnaðar, sem rekinn er með hrikalegum kostnaði af hálfu neytenda og skattgreiðenda, er nemur nálægt 20 milljörðum árlega.
Athyglisvert er, að forustumenn launafólks líta ævinlega framhjá hagsmunum neytenda og tryllast meira að segja, þegar Neytendasamtökin mæla með tillögum frá tolla- og viðskiptasamtökunum GATT, sem fela í sér bættan hag neytenda og þar með launafólks.
Forustumenn atvinnurekenda og launafólks neita líka að horfast í augu við, að utanaðkomandi og óumflýjanlegar breytingar hafa verið að gerast í rekstrarumhverfi fiskvinnslunnar í landinu. Þess vegna vilja þeir vernda hefðbundna fiskvinnslu eins og landbúnað.
Í langvinnum viðræðum þessara aðila beinast kröfur þeirra fremur að ríkinu en mótaðilanum. Verkalýðsrekendur heimta lægri vexti og bann við útflutningi á ferskfiski. Atvinnurekendur heimta lægri vexti og að skattbyrði verði flutt af fyrirtækjum yfir á launafólk.
Á grundvelli þessa vandræðagangs er farið að stefna að tímabundnu allsherjarverkfalli í marz. Því má fullyrða, að málsaðilar eru ekki starfi sínu vaxnir.
Jónas Kristjánsson
DV