Ríkisstjórnin og þingflokkar hennar hafa áttað sig á, að hún getur ekki lengur vikið sér undan aðgerðum til að lina þjáningar sjávarútvegsins. Sumar aðgerðir gærdagsins eru góðar, en aðrar óljósar eða lakari, svona eins og oftast vill verða í slíkum tilvikum.
Ríkisstjórnin hallaði sér um síðir að hinni hefðbundnu niðurstöðu, skuldbreytingu. 500 milljón króna lausaskuldum verður breytt í löng lán. Það er engin lækning í sjálfu sér, en ýtir vandanum fram í tímann. Og um leið kostar það mikla aukningu erlendra skulda.
Við slíka skuldbreytingu skiptir miklu, að ekki séu verðlaunaðir þeir, sem ekki eiga fyrir skuldum. Tímabært er orðið, að vonlaus útgerð fái að andast í friði, jafnvel þótt það kosti bókhaldstjón í ýmsum sjóðum. Það lánsfé er hvort sem er týnt og tröllum gefið.
Grisjun í útgerð eykur svigrúm þeirra, sem áfram hafa bolmagn. Aðgerðir af slíku tagi eru sjávarútveginum mikilvægari en nokkuð annað, næst á undan réttri skráningu krónunnar. Skuldbreyting er gagnslaus til frambúðar, nema henni fylgi grisjun flotans.
Ein af ráðagerðum ríkisstjórnarinnar er að leyfa frestun á greiðslum vaxta og afborgana af skipum, sem láta veiðikvóta sinn af hendi til annarra skipa. Þetta stuðlar sennilega að því, að úrelt skip eða stórskuldug verði tekin úr umferð, – ein leið til grisjunar.
Vafasamar hugmyndir um niðurgreiðslu á olíu náðu ekki fram að ganga. Ríkisstjórnin gælir þó enn við hugmyndir um minniháttar aðgerðir af slíku tagi, svo sem lækkun eða afnám ýmissa opinberra gjalda af olíu. Slíkt er til bóta, en nær sennilega skammt.
Ein millifærsla ríkisstjórnarinnar felst í flutningi peninga af almennum lánamarkaði yfir í afurðalán til sjávarútvegs. Þessi afurðalán eiga að vísu að flytjast í haust frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna. En verða þau á samkeppnishæfum kjörum?
Til þess að leysa vanda sjávarútvegsins þarf að skilja hann. Flestir eru sammála um, að vandræðin felast einkum í, að skipum hefur fjölgað og fiskum fækkað. Þar af leiðandi er umfang sjávarútvegsins of mikið. Lausnir ríkisstjórnarinnar miða ekki nóg að samdrætti sóknar.
Því miður eru ekki allir sammála um hina orsök vandræðanna, en hún er sú, að ríkisstjórnin hefur haft erlendan gjaldeyri á útsölu um margra mánaða skeið. Hið háa gengi krónunnar hefur leitt til óhóflegs innflutnings, óhagstæðs viðskiptajafnaðar og skuldasöfnunar í útlöndum.
Við slíkar aðstæður má fastlega gera því skóna, að erlendur gjaldeyrir sé skráður á of lágu verði. Þegar hins vegar jafnvægi er í útflutningi og innflutningi og skuldum er ekki safnað í útlöndum, má gera ráð fyrir, að gengið sé rétt skráð. Svo er ekki núna.
Krampakennd fastgengisstefna hefur skaðleg áhrif á atvinnulífið. Verst leikur hún útflutningsatvinnuvegina, þar sem sjávarútvegurinn er í broddi fylkingar. Hann fær ekki nógu margar krónur fyrir dollarana, sem hann aflar í útlöndum. Þannig fjármagnar hann fastgengisstefnuna.
Vandræði sjávarútvegsins eru sérstaklega mikil núna, af því að saman fer óhæfilegt umfang útgerðar og útsala á erlendum gjaldeyri. Stjórnaraðgerðir gærdagsins eru fjarri því að vera markviss lausn á þessum vanda. Þær eru fyrst og fremst hefðbundin frestun vandans.
Jónas Kristjánsson.
DV