Vanhelgað og varnarlaust kerfi

Greinar

Kvótakerfið hefur beðið varanlegan hnekki í almenningsálitinu. Gegn því hafa verið stofnuð félög og tveir stjórnmálaflokkar. Hagsmunaaðilar hafa bundizt samtökum um að ná sér í spón úr askinum og hóta ólöglegum aðgerðum til að sýna mátt sinn og megin.

Til skamms tíma var kvótakerfinu haldið uppi með því að telja fólki trú um, að það væri í þágu sjávarplássa og sjómanna. Nú hefur komið í ljós, að kvótinn flögrar um eftir hagfræðilögmálum og fer ekki að neinu leyti eftir meintum þörfum sjávarplássa og sjómanna.

Þar með hefur bilað lím, sem áður sameinaði landsbyggðina í stuðningi við kvótakerfið. Staðbundnir hagsmunir í sjávarplássunum hafa risið gegn kerfinu um leið og hugsjónir í þéttbýlinu hafa risið gegn því á allt öðrum forsendum, kröfunni um jöfnuð og réttlæti.

Í vörninni gegn áhlaupi hugsjóna og hagsmuna hefur stjórnvöldum ekki tekizt að sýna fram á gildi kvótakerfisins, þótt margt megi færa fram því til ágætis. Meginmáli skiptir, að það hefur glatað lögmæti sínu í augum þjóðarinnar og verður því ekki varið með lögum.

Öngþveiti er í uppsiglingu og það er ekki Hæstarétti að kenna. Það er þvert á móti þeim að kenna, sem neita að fallast á dóm Hæstaréttar og telja sig geta snúið út úr málinu með tæknibrellum. Það eru stjórnvöld, er hafa sáð til þeirra vandræða, sem nú eru í aðsigi.

Kvótakerfinu þarf að breyta á þann hátt, að það fullnægi stjórnarskránni og tilfinningu fólks fyrir því, hvað sé réttlátt og sanngjarnt. Ef ekki næst sátt við hugsjónir fólks, mun kerfið lúta í gras. Þetta er mál, sem ekki verður leyst með tæknilegum sjónhverfingum.

Þjóðfélagið stendur og fellur með almennri sátt um grundvallaratriði. Lögin í landinu standa ekki og falla með löggæzlu, heldur með því, að fólkið standi annaðhvort með þeim eða móti. Ekki er lengi hægt að framkvæma lög, sem þjóðin er almennt orðin andvíg.

Því fyrr sem stjórnvöld láta af tæknibrellum og byrja að taka mark á innihaldi hæstaréttardómsins í kvótamálinu og á almannarómi í landinu, þeim mun fyrr verður aftur unnt að koma á lögum og rétti í fiskveiðum. Þeim mun fyrr verður þjóðfélagið aftur sátt.

Því miður eru ráðamenn okkar margir hverjir allt of þrjózkir. Þeir telja sig vita betur en allir aðrir og hafa hingað til verið ófáanlegir til að hlusta. Þeir tala ekki bara niður til þjóðarinnar, heldur líka niður til Hæstaréttar. Slíkt dramb getur endað með falli.

Landsfeðurnir ganga að þessu leyti illa undirbúnir til kosninganna í vor. Þeir héldu fram eftir vetri í hroka sínum, að þeir gætu sannfært fólk um, að þeir vissu betur en aðrir. Nú eru þeir hins vegar að komast að raun um, að rök þeirra verða ekki tekin gild.

Enginn hörgull er á góðum hugmyndum um, hvernig kvótakerfinu verði breytt. Því fyrr sem tekið verður mark á einhverjum slíkum hugmyndafræðilegum tillögum, þeim mun minni líkur eru á, að hagsmunaaðilar geti í sína eigin þágu brotið kerfið á bak aftur.

Tillögur eru um að afskrifa núverandi kvóta á nokkrum árum og taka upp byggðakvóta eða almenningskvóta eða uppboðskvóta. Leiðirnar eru margar, en að baki þeim öllum er sannfæring höfundanna um, að misnotkun núverandi kerfis hafi vanhelgað það.

Það er raunar mergurinn málsins. Kvótakerfið hefur vanhelgazt og verður ekki varið. Því fyrr, sem nýtt kerfi rís á rústum þess, þeim mun betur farnast okkur.

Jónas Kristjánsson

DV