Vanhirtar almannavarnir

Greinar

Fárviðrið á sunnudaginn sýndi, að Íslendingar eru vel skipulagðir til átaka. Björgunarsveitir slysavarnamanna, skáta og flugbjörgunarmanna hafa á að skipa hundruðum tiltölulega þjálfaðra og vel búinna manna, sem hér gegna hlutverki eins konar heimavarnaliðs.

Með aðstoð iðnaðarmanna og sjálfboðaliða tókst björgunarmönnum að hefta skaðsemi fárviðrisins. Víða lögðu þessir menn sig í hættu, til dæmis á húsþökum. Almennt var sýnt æðruleysi og framtak, án þess að björgunarmenn yrðu fyrir alvarlegum meiðslum.

En margt er í ólagi hjá okkur, þegar frá er skilinn þáttur björgunarsveita og starfsliðs veitustofnana af ýmsu tagi. Einkum eru forvarnir okkar í ólagi, svo sem bezt kemur í ljós af loftárásum bárujárnsplatna, sem eru árviss þáttur í fárviðri af þessu tagi.

Húsbyggjendur, húsasmiðir og húseigendur þurfa að hafa handbærar tæknilegar upplýsingar um, hvernig ganga skuli frá þökum og þakplötum á þann hátt, að standist fárviðri. Þessa vitneskju ber stjórnvöldum að birta mönnum í bæklingum og á námskeiðum.

Afleitt er, að nýleg hús skuli vera hættuleg umhverfi sínu, þrátt fyrir reynslu fyrri ára af þörfinni á að ganga vel frá húsþökum. Líklega þarf að koma þeirri reglu á, að með úttekt eftirlitsaðila á vönduðum frágangi geti húseigendur fengið afslátt af foktryggingum.

Tryggingafélögin hafa sofið á verðinum í þessu máli sem ýmsum öðrum. Þau veita til dæmis ekki heldur afslátt af tryggingum þeirra, sem hafa brunavarnir í lagi, en borga eigi að síður tjón hinna, sem hafa allt í ólagi. Þannig stuðla tryggingafélögin að slóðaskap.

Einnig er mikilvægt, að línur og tengistöðvar Landsvirkjunar og helztu rafveitna í þéttbýli séu hannaðar og reistar á þann hátt, að minni líkur séu en núna á, að rafmagn fari af í fárviðri. Svo virðist sem álagsstaðlar séu of lágir miðað við aðstæður hér á landi.

Rafmagnið er sérstaklega mikilvægt, af því að svo margt annað mikilvægt er háð því, svo sem örbylgjustöðvar útvarps og hitaveitur, svo og frystigeymslur fiskvinnslustöðva. Með vandaðri frágangi á línum og tengistöðvum á að vera unnt að draga úr vandræðum.

Þar á ofan er æskilegt, að fleiri mannvirki en núna séu með olíukyntar vararafstöðvar. Það gildir einkum um framangreindar örbylgjustöðvar, hitaveitur og frysti-geymslur. Bezt væri að hafa sem víðast olíukyntar toppstöðvar á innanbæjarkerfum og hverfiskerfum.

Eitt allra mikilvægasta öryggisatriðið er, að þjóðin auki olíubirgðir sínar úr þriggja mánaða notkun í heils árs birgðir. Við þurfum að vera búin undir olíuskort vegna atburða í útlöndum ofan á okkar eigin vandamál af eldgosum, jarðskjálftum og fárviðrum.

Ekki er hægt að ætlast til, að einstakar stofnanir á borð við Ríkisútvarpið verji miklu af eigin aflafé til að bæta almannavarnir í landinu. Þjóðfélagið þarf að taka pólitíska afstöðu til að fjármagna öryggi sitt með sérstöku framlagi til landvarna á fjárlögum hvers árs.

Þjóðin hefði nóga peninga úr ríkissjóði, ef hún neitaði sér um að leggja árlega marga milljarða til að styrkja hefðbundinn landbúnað með uppbótum, niðurgreiðslum, styrkjum og innflutningsbanni. Þessi þáttur kostar okkur eins mikið og landvarnir kosta aðrar þjóðir.

Sá þáttur almannavarna, sem snýr að björgunarstarfi sjálfboðasveita, er í góðu lagi hjá okkur. Forvarnir ríkis og sveitarfélaga eru hins vegar í vanhirðu.

Jónas Kristjánsson

DV