Vanhugsuð vinsældaþrá

Greinar

Heimsviðskiptastofnunin nýja á við næg vandamál að stríða, þótt Kína verði ekki aðildarríki hennar að sinni. Skaðlegar tilraunir Bandaríkjanna til að draga þetta kröfuharða vandræðaríki inn í glervörubúðina eru til þess eins fallnar að gera illt ástand enn verra.

Reynslan ætti að hafa kennt vestrænum stjórnmálamönnum fyrir löngu, að sumir eru þess eðlis, að ekki borgar sig að smjaðra fyrir þeim og mæla upp í þeim vitleysuna. Slíkt verður bara til þess að auka kröfuhörku og yfirgang þeirra. Kína er gott dæmi um þetta.

Vestrænir stjórnmálamenn eiga erfitt með að komast út úr vinsældaþrá sinni, þegar þeir etja kappi við annars konar stjórnmálamenn á borð við Jiang Zemin eða Saddam Hussein, sem ekki hugsa á sömu nótum og telja sérhverja eftirgjöf verða tilefni aukinnar frekju.

Þetta á ekki frekar við um bandaríska landsfeður en evrópska. Illt var að sjá evrópska landsfeður bugta sig og beygja fyrir sendimanni Kína, sem bætti gráu ofan á svart með því að gefa þeim einkunn fyrir dugnað við að þagga niður í andófsmönnum á götum úti.

Heimsviðskiptastofnunin þarf að gefa sér tíma til að ná áttum í þríhliða viðskiptabardögum Bandaríkjanna, Evrópu og þriðja heimsins, áður en fílar eru leiddir inn í glervörubúðina. Stofnunin þarf að reyna að varðveita ótryggan árangur, sem náðst hefur í viðskiptafrelsi.

Heimsviðskiptastofnunin þarf að fá tíma til að finna, hvernig grænir þjóðhagsreikningar breyta myndinni, sem menn höfðu áður af viðskiptahömlum og viðskiptafrelsi. Stofnunin þarf að finna sér stað í tilverunni, í stað þess að eyða tíma og orku í kínverska landsfeður.

Miklu betra er að bíða eftir hruni stjórnkerfisins í Kína. Kommúnistaflokkur landsins hefur glatað hugmyndafræðinni ekki síður en kommúnistaflokkur Sovétríkjanna á sínum tíma og er ófær um að glíma við nýja hugmyndafræði, sem breiðist út meðal almennings.

Það er ekki að ástæðulausu, að stjórnvöld í Kína ganga berserksgang gegn þarlendum sértrúarsöfnuðum á borð við Falun Gong, sem starfa utan stjórnmála og hafa öðlast það, sem kommúnistaflokkurinn hefur glatað, tiltrú venjulegs og friðsams fólks í öllum stéttum.

Einn góðan veðurdag hrynur stjórnkerfið í Kína eins og það hrundi um daginn í Indónesíu og fyrir áratug í Sovétríkjunum. Þegar þar að kemur, verður vont fyrir vestræna stjórnmálamenn að hafa verið staðnir að því að nudda sér utan í lítt geðuga alræðishyggjumenn.

Það er alveg út í hött að sóa góðum og vestrænum peningum í að fjármagna styrjöld Jeltsíns Rússlandsforseta við óbreytta borgara í Tsjetsjeníu, rétt eins og það var alveg út í hött að sóa amerískum peningum í glæpaherforingja í Indónesíu, Chile og Pakistan.

Með því að ausa peningum um Pakistan í hendur Talebana í Afganistan, tókst Bandaríkjastjórn að framleiða ógnarstjórn í Afganistan, sem tekur flestu fram að viðurstyggð, sem áður hefur sést. Um leið tókst Bandaríkjastjórn að magna Pakistan sem stórvandræðamál.

Í ljósi reynslunnar er óskiljanlegt, að vestrænir landsfeður skuli enn telja heimspólitískt hagkvæmt að ganga erinda alls konar slúbberta og styðja ógnarstjórn þeirra, þótt vitað sé, að þeir láta ekkert af hendi í staðinn og að fyrr eða síðar kemur að skuldadögunum.

Engin vitleysa af þessu tagi er verri en sífelldar tilraunir til að sefa ráðmenn Kína og klóra yfir glæpi þeirra gegn mannkyninu og menningarsögunni.

Jónas Kristjánsson

DV