Frjálsu forsetakosningarnar í Afganistan fóru út um þúfur. Af þvoðist blekið, sem sett var á hendur kjósenda, svo að þeir kysu ekki aftur og aftur. Þegar það kom í ljós um hádegisbil á kosningadaginn drógu flestir mótframbjóðendur núverandi forseta sig til baka og fordæmdu kosningarnar.
Fyrir kosningarnar var vitað um stórfellt kosningasvindl. Skráðir kjósendur urðu að lokum nokkurn veginn eins margir og þeir, sem kosningarétt áttu að hafa. Þar sem engin leið var að skrá mikinn fjölda kjósenda, er talið líklegt, að verulega margir hafi verið tvískráðir eða margskráðir.
Forsetakosningarnar á laugardaginn áttu að tákna kaflaskil í sögu hins stríðshrjáða Afganistans. Þær snerust samt aðeins um að staðfesta lepp Bandaríkjanna í embætti með lélegri eftirlíkingu vestrænna hefða. Þingkosningar hafa ekki farið fram í landinu og verða ekki fyrr en um mitt næsta ár.
Ástandið í Afganistan er orðið mjög alvarlegt. Friðargæzla Atlantshafsbandalagsins er nánast eingöngu stunduð í Kabúl, höfuðborginni, þar sem konur sitja enn í fangelsi fyrir að sýna á sér andlitið. Fyrir utan Kabúl ráða herstjórar og ribbaldar, sem tóku völdin að undirlagi Bandaríkjanna.
Staða kvenna hefur lagazt í höfuðborginni, þótt hún sé langt frá upprunalegum markmiðum. Utan höfuðborgarinnar hefur staða þeirra versnað. Kvenhatur herstjóranna er ekki minna en kvenhatur talíbana var fyrir innrás Bandaríkjanna með stuðningi herstjóranna, sem talíbanar höfðu áður sigrað.
Talíbönum hafði tekizt að draga verulega úr framleiðslu fíkniefna á valdaskeiði sínu. Nú er framleiðslan komin upp úr sögulegu hámarki. Fíkniefni eru orðin meira en þrír fjórðu hlutar þjóðarframleiðslunnar, af því að herstjórar og ribbaldar ráða lögum og lofum hvarvetna utan Kabúl.
Ekki hefur tekizt að hafa hendur í hári helztu foringja talíbana og enn síður í foringja al Kaída. Osama bin Laden leikur enn lausum hala í fjöllunum milli Afganistan og Pakistan. Eftir þriggja ára hernám er Afganistan í rúst og orðið að skólabókardæmi um misheppnað, bandarískt stríð.
Ísland styður hernám Afganistans. Atlantshafsbandalagið sér um friðargæzluna í Kabúl og þorir ekki út fyrir borgina. Íslendingar sjá um flugumferðarstjórn á vegum bandalagsins. Rétt eins og aðildin að stríðinu gegn Írak var þessi aðild Íslands að ömurlegu stríði ákveðin án pólitískrar umræðu.
Afganir hröktu Alexander mikla og Gengis Kan af höndum sér. Þeir niðurlægðu heimsveldi Breta og Rússa. Þeir mun losa sig við Bandaríkjamenn og Íslendinga. Þetta eru vanir menn.
Jónas Kristjánsson
DV