Vanir vosbúðinni

Hestar

Fornmenn riðu miklu beinna en við gerum nú. Styttu sér leið í stað þess að velja þægilegar slóðir. Létu sér ekki bregða við að sundríða ár til að spara sér króka á vöð. Oft riðu þeir hreinlega beint af augum. Voru harðgerðari en við erum nú á tímum og hestar þeirra þrekmeiri. Söguhetjurnar riðu hiklaust um 100 kílómetra á dag, oft einhesta. Sváfu ekki heilu næturnar, en köstuðu sér niður til að sofa smástund í senn. Voru blautir og hraktir af rigningum og vatnareið. En létu það ekki aftra sér, enda voru þeir í efnismiklum vaðmálsfötum. Höfðingjar fornsagna voru vanir vosbúð og óhræddir við hana.