Nokkuð vantar á, að norræna skýrslan um byrði Íslendinga af landbúnaði nái yfir alla þætti vandans. Beinir styrkir, uppbætur og niðurgreiðslur nema níu milljörðum á fjárlögum ríkisins árið 1993, en ekki sjö og hálfum milljarði. Þetta má lesa svart á hvítu í fjárlögunum.
Erfiðara er að meta vantalningu skýrslunnar á tjóni þjóðarinnar af innflutningsbanni búvöru. Ljóst er þó, að þar er ekki tekið tillit til hemla á innflutningi grænmetis og kartaflna, svo og smjörlíkis. Í þessum liðum felst að minnsta kosti tveggja milljarða króna viðbótartjón.
Þannig er tjónið af innflutningsbanni að minnsta kosti átta milljarðar, en ekki þeir sex milljarðar, sem koma fram í skýrslunni. Ýmsir hagfræðingar hafa reynt að meta þennan þátt til fulls og komizt að niðurstöðum, sem nema nálægt tólf milljarða króna áregu tjóni neytenda.
Ef talið er saman tjón skattgreiðenda eins og það kemur fram í fjárlögum og tjón neytenda eins og það kemur fram í ofangreindu mati á innflutningsbanni og -hömlum, koma út úr dæminu upphæðir, sem nema frá sautján milljörðum upp í tuttugu og einn milljarð á ári.
Þær tölur hafa síður en svo orðið úreltar af völdum búvörusamninga. Þetta eru tölur, sem gilda fyrir árið 1993. Órökstuddar og marklausar eru fullyrðingar áróðursvélar hins hefðbundna landbúnaðar um, að búvörusamningar hafi breytt forsendum í þessum dæmum.
Búvörusamningar hafa ekki létt byrðum af herðum neytenda og skattgreiðenda. Búvörusamningar hafa hins vegar fryst ástandið fjölmörg ár fram í tímann til að koma í veg fyrir, að nýjar ríkisstjórnir geti tekið ákvarðanir um að létta byrðar neytenda og skattgreiðenda.
Norræna skýrslan um tjón Íslendinga af völdum landbúnaðarstefnunnar flytur ekki neinn nýjan sannleika og er þeim annmarka háð að vanmeta stórlega tjónið. Þess vegna er engin ástæða fyrir áróðursvél hins hefðbundna landbúnaðar að hafna þægilega lágum tölum hennar.
Af norrænu skýrslunni mætti ætla, að árlegt tjón fjögurra manna fjölskyldu næmi um 90.000 krónum, en þá er aðeins fjallað um hluta tjónsins af innflutningsbanni. Í rauninni er tjón fjölskyldunnar af allri styrkja- og haftastefnu landbúnaðar rúmlega 300.000 krónur á ári.
Auðvitað má ekki gleyma því, að íslenzkum neytendum og skattgreiðendum kæmu allar upphæðir vel, hvort sem þær eru 90.000 krónur á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu eða 300.000 krónur. Þetta eru allt saman háar upphæðir, hvernig sem búvörudæmið er reiknað.
Með hverri einustu reikningsaðferð koma út niðurstöður, sem fela í sér, að lífskjararýrnun þjóðarinnar af völdum styrkja- og haftastefnu landbúnaðar er margföld á við það tjón, sem hún hefur beðið af völdum árferðis og aflabragða, kjarasamninga og þjóðarsátta.
Það segir mikla sögu um forustusveit aðila vinnumarkaðarins, ráðuneyti og ríkisstjórn, svo og sérfræðingahjörðina í kringum alla þessa aðila, að landbúnaðarruglið skuli aldrei vera nefnt, þegar verið er að skrúfa niður lífskjörin með nýjum og nýjum þjóðarsáttum.
Það ætti til dæmis að vera ábyrgðarhluti fyrir verkalýðsrekendur að standa að endurtekinni lífskjaraskerðingu án þess að nefna nokkru sinni einu orði, að spara megi umbjóðendum þeirra alla lífskjaraskerðinguna með því að byrja að höggva í styrkja- og haftakerfið.
Norræna skýrslan markar þau tímamót, að í fyrsta skipti stuðlar íslenzkt ráðuneyti að birtingu upplýsinga um tjón þjóðarinnar af völdum landbúnaðarstefnunnar.
Jónas Kristjánsson
DV