Var það nokkuð fleira

Greinar

Hætt er við, að margir sakborningar, sem koma fyrir Hæstarétt á næstunni, geti ekki varizt brosi, þegar þeir sjá skikkjuklædda dómara réttarins stíga af þungri alvöru upp í hásæti sín. Brennivínsmálið hefur skaðað álit Hæstaréttar og þannig valdið lýðveldinu tjóni.

Þekktur lögmaður gaf fyrir ári út bók um Hæstarétt, þar sem meðal annars voru rakin dæmi um lítinn og lélegan rökstuðning réttarins fyrir úrskurðum sínum. Þetta telja margir óheppilegt, því að ýtrustu rök lögfróðustu manna ættu að geta bætt dómgæzlu á lægri stigum.

Nú er fengin skýring á stuttum véfréttatexta í dómum Hæstaréttar. Hún segir ekki, að þar séu menn of drukknir eða timbraðir til að tjá sig á blaði. Hún segir bara, að þar séu dómarar, sem hafi ekki næga dómgreind til að setja saman góðan rökstuðning fyrir máli sínu.

“Síðan rjúka fjölmiðlar upp til handa og fóta eins og að tólf lík hefðu fundizt uppi á lofti hjá mér” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Þessi samanburður er afar óheppilegur, því að “líkin” gátu verið 1440. Glöggir menn eiga ekki að láta svona samanburð frá sér fara.

“Mér hafa aldrei verið sýndar neinar reglur um þessi áfengiskaup” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Auðvitað átti hann fyrirfram og að eigin frumkvæði að kynna sér reglurnar, því að hann átti að vita, að annars gæti hugsanlega verið um misnotkun að ræða af hans hálfu.

Úti í þjóðfélaginu er ætlazt til, að dómarar Hæstaréttar séu vammlausir. Þeir mega að almannadómi ekki vera á ferðalögum á gráum svæðum, sem eru á mörkum þess að vera siðlaus, ef ekki löglaus. Ennfremur sættir fólk sig illa við, að dómarar Hæstaréttar séu gráðugir.

“Ég tel þetta ekki brjóta í bága við almenna réttlætiskennd eða siðgæði” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Þessi ummæli benda til, að hann geri sér afar litla grein fyrir, hver sé almenn réttlætiskennd og hvert sé almennt siðgæði í landinu. Og vanmeti hvort tveggja.

“Þetta eru hlunnindi, sem fylgja starfinu” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Hann telur því árlegan flutning á 1440 áfengisflöskum heim til sín, á verði, sem er ekki nema lítið brot af almennu söluverði, vera eins konar herfang, er ekki komi við opinberri gestamóttöku.

Svo virðist sem hann hafi að nokkru leyti rétt fyrir sér. Handhafar forsetavalds í fjarveru forseta Íslands hafa engar risnuskyldur, sem ekki er séð um á öðrum vettvangi. Brennivínsfríðindi þeirra eru því eins konar hlunnindi, sem þarf að afnema af þessu gefna tilefni.

Forseti sameinaðs Alþingis hefur játað að hafa sem einn þriggja handhafa forsetavalds tekið út með sama hætti 100­200 áfengisflöskur á ári. Munurinn á honum og forseta Hæstaréttar er, að annar heldur notkun fríðindanna innan marka, sem vekja takmarkaðri athygli.

Búast má við, að græðgi forseta Hæstaréttar leiði til, að hlunnindi þessi verði afnumin með öllu. Vel er á annan hátt séð fyrir allri gestamóttöku, sem fara þarf fram á vegum ríkisins. En betur mætti almennt fylgjast með, að veizluföng leki ekki heim til gestgjafanna.

Brýnast í málinu er þó, að Hæstiréttur sjálfur átti sig á, að virðing hans, sem var of lítil fyrir, hefur skerzt við uppljóstrun brennivínsmálsins. Erfitt verður fyrir hann að öðlast virðingu í hugum fólks, meðan dómari við réttinn lætur frá sér fara eftirfarandi ummæli:

“Starfsmenn ÁTVR hafa aldrei séð ástæðu til að hreyfa athugasemdum. Í lok samtala okkar hafa þeir einfaldlega spurt: “Var það nokkuð fleira?” “

Jónas Kristjánsson

DV