Vara og fíkniefni í senn

Greinar

Frá sjónarhóli viðskipta og hagfræði er verzlun með áfenga drykki eins og hver önnur verzlun, sem eigi að fylgja lögmálum markaðarins, svo sem afnámi einkasölu. Dreifing áfengis megi vera á vegum allra, sem hafa leyfi til að reka verzlun með aðrar vörur fyrir neytendur.

Frá sjónarhóli læknisfræða nútímans er áfengi hættulegt fíkniefni, sem reynist mörgum um megn, einkum vegna erfðafræðilegra orsaka og vegna illviðráðanlegra umhverfisáhrifa. Samkvæmt skilgreiningu fræðanna líkist áfengissýki hverjum öðrum sjúkdómi.

Viðskiptasjónarmið ráða ferð Evrópusambandsins í verzlunarmálum áfengis. Litið er á hindranir gegn slíkri verzlun sem hverjar aðrar viðskiptahindranir, sem beri að ryðja úr vegi innan evrópska markaðarins. Sambandið hefur beitt Norðurlönd þrýstingi í þessa átt.

Svíar, sem hafa einkasölu eins og við, hafa farið undan í flæmingi og beitt fyrir sig læknisfræðilegum sjónarmiðum og þá ekki síður hinum félagslegu, því að ofneyzla áfengis hefur feiknarleg áhrif í þjóðfélaginu og stýrir meðal annars flestum glæpum og slysum.

Ótal rannsóknir hafa sýnt, að áfengisneyzla fylgir aðgangi að áfengi. Því greiðari og ódýrari sem aðgangurinn er, þeim mun meiri er neyzlan, þeim mun líklegra er, að fólk ánetjist fíkniefninu og þeim mun fleiri verða glæpirnir og slysin. Sænska stefnan vill hafa vit fyrir fólki.

Vegna mikilla áfengisvandamála kusu íslenzk stjórnvöld á sínum tíma að fara sænsku leiðina og reyna að hafa vit fyrir fólki. Aðferðirnar hafa mildazt með áratugunum og felast nú einkum í, að smásala áfengis er í sérverzlunum ríkisfyrirtækis, sem tollar vöruna óspart.

Forsjárhyggjan á Íslandi byggist aðeins á þjóðfélagslegum sjónarmiðum, en alls ekki hinum læknisfræðilegu. Hvorki Hæstiréttur né Stjórnarráðið viðurkenna áfengissýki sem sjúkdóm, þótt það sé gert hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og styðjist við ótal rannsóknir.

Áratugum saman hafa vísindamenn erlendis vitað, að áfengissýki er sumpart arfgengur sjúkdómur, sumpart tengdur illviðráðanlegum umhverfisáhrifum og sumpart nokkurs konar sjálfskaparvíti. Að öllu þessu leyti er áfengissýki alveg eins og hjartamein og krabbamein.

Áfengissýki lýsir sér líkamlega eins og aðrir sjúkdómar, breytir starfi boðefna og ruglar starfsemi heilans. Erfitt er að snúa við, ef vandinn hefur fengið að þróast. Rétt eins og úrræði gegn hjartameini og krabbameini gagnast úrræði gegn áfengismeini ekki öllum.

Ef læknisfræðilegu sjónarmiðin næðu fram að ganga hér á landi, mundi aukast fyrirstaða gegn auknum aðgangi að áfengi. Auðvelt er að framreikna kostnaðinn af sjúkdómi, sem ánetjar 15­20% þjóðarinnar svo hastarlega, að batalíkur eru töluvert innan við helming tilvika.

Kostnaður við meðferð áfengissýki er barnaleikur í samanburði við kostnað af glæpum og slysum af völdum áfengis. Allur þorri glæpa og flest slys, að sjálfskaparvíti íþróttaslysa frátöldu, byggjast á neyzlu áfengis, stundum í bland við hættuleg læknislyf eða ólögleg fíkniefni.

Eðlilegt væri að merkja áfengi aðvörunarmiðum eins og tóbak. Möguleikar forsjárhyggju takmarkast að öðru leyti af möguleikum fólks til að brugga sjálft og smygla og af hagsmunum, sem við höfum af móttöku erlendra ferðamanna, sem margir vilja óheftan aðgang að áfengi.

Núverandi skipan verðlags og sölu áfengis er dæmigerð millileið milli forsjárhyggju og markaðshyggju. Hún er heiðarleg tilraun til að sætta ósættanleg sjónarmið.

Jónas Kristjánsson

DV