Varaforseti Taívans velkominn

Greinar

Ánægjulegt er að fá hingað í heimsókn Lli Tsjen, varaforseta Taívans. Við höfum ekkert nema gott af því ríki að segja. Viðskipti landanna fara vaxandi og fylgja leikreglum. Við hæfi er, að Davíð Oddsson forsætisráðherra skuli sýna honum kurteisi og hitta hann að máli.

Ánægjulegast af öllu er þó, að forsætisráðherra skuli virða að vettugi kveinstafi umboðsmanna Kínastjórnar út af þessum samskiptum Íslands og Taívans. Kominn var tími til, að íslenzkir ráðamenn létu af fyrra undirlægjuhætti gagnvart dólgastjórninni í Beijing.

Á tímabili voru íslenzkir ráðamenn á sífelldum ferðalögum með fríðu föruneyti til Kína, vafalaust í þeim tilgangi að auka viðskipti ríkjanna. Komið var á fót dýru sendiráði, sem betur hefði verið stofnað í Japan, þar sem við rekum hundrað sinnum meiri viðskipti.

Mikill skaði er að vestrænum fjárfestingum í Kína. Stjórnvöld þar í landi virða ekki leikreglur og koma fram af geðþótta við erlend fyrirtæki. Þetta fundu nokkrir skjólstæðingar Halldórs Blöndals, þegar þeir reistu þar lakkrísverksmiðju, sem gerð var gjaldþrota.

Kínastjórn hefur tekið erlenda fjárfestingu í gíslingu til að knýja eigendur hennar til að ganga erinda Kínastjórnar í stjórnmálum. Þannig hafa bandarísk fyrirtæki, með Microsoft í broddi fylkingar, hvað eftir annað reynt að fá Bandaríkjastjórn til að styðja Kínastjórn.

Microsoft er að reyna að verja fjárfestingu sína í Kína og fá kínverska herinn til að hætta að reka fjölföldunarverksmiðjur, þar sem hugbúnaði fyrirtækisins er stolið. Samtals rekur herinn í Kína um þrjátíu risaverksmiðjur, sem eingöngu starfa að stuldi hugverka.

Engin ríkisstjórn í heiminum er eins hættuleg umhverfi sínu og Kínastjórn. Hún hefur ráðizt með vopnavaldi á öll nágrannaríki sín. Hún stundar ögrandi heræfingar á alþjóðlegum siglingaleiðum og lætur landgönguliða stíga á land á eyjum nágrannaríkja.

Fyrsta verk Kínastjórnar eftir valdatökuna í Hong Kong var að taka kosningarétt af miklum meirihluta íbúanna og fela staðarvöld í hendur fámennum hópi auðkýfinga, sem reka erindi Kínastjórnar. Þetta var í stíl annarra aðgerða Kínastjórnar gegn mannréttindum.

Kínastjórn er sérstaklega uppsigað við mannréttindi og telur þau vera ógnun við vald sitt. Hún þverbrýtur alla fjölþjóðasamninga á því sviði, þótt hún hafi skrifað undir þá. Hún er ill og ómerkileg í senn. Hún varpar skugga á alla, sem nudda sér utan í hana.

Sem betur fer eru menn að byrja að átta sig á þessu. Kínversk-íslenzka félagið sýndi nýlega sjálfstæði sitt með því að bjóða Dalai Lama til Íslands, þótt það yrði til þess, að kínverska sendiráðið ryfi samskipti við félagið. Og nú hefur forsætisráðherra Íslands skipt um stefnu.

Eðlilegt framhald nýs skilnings á illu eðli Kínastjórnar er, að menn átti sig á, að íslenzkt sendiráð á ekki heima í Beijing, heldur í Tokyo, þar sem menn virða lög og reglur í viðskiptum eins og á öðrum sviðum og hafa reynzt vilja kaupa íslenzkar vörur dýru verði.

Allir þeir, sem eiga um sárt að binda vegna yfirgangs dólganna í Beijing, eiga að vera okkar vinir. Þar á meðal er auðvitað fulltrúi ríkis, sem sætir sífelldum ögrunum frá meginlandinu. Þess vegna er varaforseti Taívans talinn velkominn gestur hér á landi.

Hugsanlegar hefndaraðgerðir Kínastjórnar verða okkur seint eins þungar í skauti og uppbygging ótryggra viðskipta við Kína og fjárfestinga þar hefði orðið.

Jónas Kristjánsson

DV