Varast þarf spöttuð kynbótahross

Hestar

Sigríður Björnsdóttir:

“Val á kynbótahrossum út frá niðurstöðu röntgenmyndatöku eða beygiprófs á hæklum væri til þess fallin að lækka tíðni sjúkdómsins í hrossastofninum. Röntgenmyndataka er öruggari greiningaraðferð en beygiprófið og því vænlegri til árangurs. Mikilvægast er að varast stóðhesta og hryssur sem greinst hafa ung með röntgenbreytingar þar sem gera verður ráð fyrir að þau beri með sér mestan veikleika fyrir sjúkdómnum.”

Meðfæddur
veikleiki
fyrir spatti

“Hross fæðast með mismikinn veikleika fyrir spatti vegna mismunandi arfgerðar, og getur veikleikinn falist í byggingargöllum (krepptum hækli og/eða kýrfættri fótstöðu), eða öðrum göllum í gerð hækilsins (liðfletir passa illa saman og/eða los í stuðningsvef). Þetta veldur óeðlilegu álagi á eðlilegt brjósk og bein flötu liða hækilsins og leiðir til brjóskeyðingar í þeim. Hversu snemma brjóskeyðing tekur að þróast og hversu alvarlegar og útbreiddar liðskemmdirnar verða, fer að miklu leyti eftir því hversu mikill meðfæddur veikleiki er til staðar hjá hverju hrossi fyrir sig.”

Álag og tölt
hafa ekki áhrif

“Álag í reið, hvort heldur á ung hross (4-5 v.) eða eldri, reyndist ekki auka hættuna á spatti, né hafa neikvæð áhrif á þróun sjúkdómsins. Ekkert bendir heldur til að tölt sé áhættuþáttur.”

Skiptir máli á
miðjum aldri

“Samkvæmt þessari rannsókn eru hross sjaldan felld vegna afturfótahelti fyrir 13 vetra aldurinn og mörg hrossa með röntgenbreytingar eða helti eftir beygjupróf er hægt að nota til reiðar í mörg ár eftir að röntgenbreytingar koma fram. Því má segja að spatt hafi lítil áhrif á notagildi hrossa framan af aldri en síðan skilur greinilega á milli hrossa með röntgenbreytingar og hrossa án þeirra.”

(Kaflar úr útdrætti úr doktorsritgerð Sigríðar Björnsdóttur um spatt)

6-7 vetra hestar
röntgenprófaðir

Sigurður Sæmundsson:

Þar sem komið hefur í ljós, að arfengi spatts er mjög hátt, tel ég, að allir sex eða sjö vetra stóðhestar eigi að fara í röntgenskoðun. Upplýst verði, hverjir þeirra mælast með skugga. Hverfandi líkur eru á, að hinir séu arfberar og því ætti að vera tiltölulega öruggt að nota þá. Þessi röntgenskoðun á 6-7 vetra stóðhestum ætti að vera skylda og niðurstöðurnar opinberaðar öllum. Með slíkri aðgerð má draga verulega úr spatti í ræktuninni.

Nú þegar er búið að mæla marga stóðhesta í tengslum við rannsóknina og niðurstöður mælinganna eru á eins konar munnmælastigi, sem alls ekki er nógu gott. Spilin eiga að liggja upp á borði, annars verður enginn ræktunarárangur af rannsókninni.

Ég er hins vegar ekki sannfærður um gagnsemi þess að mæla fótstöðu stóðhesta út frá hugsanlegum orsökum spatts, því að ég held, að enn séu ekki komin þau vísindi, sem geti sagt fyrirfram, að þessi eða hinn stóðhestur sé með þannig fótstöðu, að líklegt sé að hann mælist með skugga, þegar hann er orðinn 6-7 vetra. Ég er vantrúaður á að láta augnamælingu kynbótadómara eða dómaranefnda ráða gengi ungra stóðhesta og tel betra að taka þá úr ræktuninni 6 vetra gamla, ef þeir eru þá komnir með skugga.

Svo tel ég í fljótu bragði í lagi, að eldri stóðhestar mælist með skugga, því að líklegt er, að þeir séu ekki miklir erfðaberar spatts, ef skuggi kemur fram tiltölulega seint á ævinni. Í því tilviki má frekar líta á spatt sem öldrunarsjúkdóm en erfðasjúkdóm.

Engin ástæða er
til gönuhlaupa

Gunnar Arnarson:

Ég vil fara varlega í að draga ályktanir af lítilli rannsókn, sem ekki var byggð á vísindalegu tilviljanaúrtaki. Í rannsóknina fór mikið af hrossum, sem talin voru geta verið spöttuð. Slík hross voru valin inn.

Ég held að miklu meira mark væri takandi á gagnabanka, sem byggður væri á röntgenmyndum og beygjuprófunum, sem dýralæknar framkvæma holt og bolt. Það eru 500-800 hross röntgenmynduð á hverju ári.

Mér sýnist vandamálið í útflutningi vera um 15% og fara heldur minnkandi. Ég held, að uppeldi hrossa sé áhrifaþáttur í þessu. Ef hross hafa gott fóður, góða haga, gott svigrúm og mikla hreyfingu, eru minni líkur á spatti samkvæmt minni reynslu.

Spattrannsóknin gefur auðvitað vísbendingar, sem kalla á frekari rannsóknir. Engin ástæða er hins vegar til gönuhlaupa á grundvelli hennar einnar. Við skulum láta alhæfingar eiga sig og halda frekar áfram rannsóknum.

Mæla upp alla
stóðhestana

Bjarni E. Sigurðsson:

Auðveldast og einfaldast er að vanda til vals á stóðhestum, því að þeir eru tiltölulega fáir og eru samt helmingur alls dæmisins. Ræktendur verða að fá að vita, hvaða stóðhestar eru arfberar spattsins. Tiltölulega einfalt er að mæla upp alla stóðhesta, sem eru í ræktuninni og birta niðurstöðurnar.

Svo verður hver ræktandi fyrir sig að gæta þess að hætta að nota spattaðar merar í eigin ræktun, en það er mál hvers ræktanda fyrir sig.

Skoða stóðhesta
sem koma í dóm

Bjarni Þorkelsson:

Ef á að verða árangur í kynbótastarfi í framhaldi af þeirri niðurstöðu spattrannsóknarinnar, að spatt sé að töluverðu leyti arfgengt, er nauðsynlegt að halda rannsóknum áfram og láta þær ná almennt til þeirra stóðhesta, sem eru í notkun. Mér finnst þó ekki líklegt, að draga megi ályktanir af spatti í gömlum stóðhestum, sem gætu verið spattaðir fyrir aldurs sakir. Hins vegar finnst mér rétt að skoða nýja stóðhesta, þegar þeir koma í dóm, 4, 5 og 6 vetra gamlir, og taka þá til dæmis af þeim röntgenmyndir. Ef þeir eru á þeim aldri komnir með bletti, er sennilega um arfgengi að ræða og ekki vænlegt að nota þá í ræktuninni.

Leitaraðferðir
eru ónákvæmar

Brynjar Vilmundarson:

Auðvitað er athyglisvert, að spattið skuli ekki stafa af álagi á ung hross, heldur vera að stórum hluta arfgengt. Hins vegar er ekki einfalt að nota þær upplýsingar í kynbótastarfi, því að enn vantar aðferðina við að grisja spatthrossin út í tæka tíð. Mælingar á hæklum eru ekki nákvæm vísindi og sama er að segja um röntgenmyndir. Skuggar, sem koma fram á myndum, eru stundum tæknileg eðlis, en ekki raunverulegir. Það væri ábyrgðarhluti að henda stóðhesti úr ræktun út á gallaðar upplýsingar af slíku tagi. Ég skil, að ráðamenn vilji ekki birta nöfn stóðhesta, sem sýndu spatt í rannsókninni, því að miklu fleiri stóðhestar voru ekki rannsakaðir, en gætu auðvitað verið jafnmikið spattaðir og hinir. Að mínu viti á enn eftir að þróa aðferð til að nýta niðurstöður spattrannsóknarinnar í markvissu kynbótastarfi. Það er brýnt mál.

Trippi leggja
ekki lengur af

Bjarkar Snorrason:

Ég er ekki viss um, að mikið sé að marka þessi vísindi og tel vafasamt að fara að reyna að flokka stóðhesta út frá líkum á spatti. Ég hef meiri trú á, að spattið tengist því, að trippi verða ekki lengur þunn á útmánuðum. Hingað kom einu sinni austurrískur dýrafræðiprófessor, sem hélt þessu fram. Það er truflun á gangverki ársins, þegar trippi eru höfð feit árið um kring. Hross eiga að leggja af á útmánuðum, það er þeim eðlilegt.

Mælingarnar eru
á gráa svæðinu

Jón Friðriksson:

Því er haldið fram, að með markvissu kynbótastarfi í aldarfjórðung megi minnka spatt um 10%. Þess vegna er ekki víst, að tímabært sé að grípa til aðgerða á þessu stigi málsins. Rannsaka þarf spatt betur og fylgjast með ungum hrossum um langt árabil. Blettir á röntgenmyndum geta stafað af meiðslum, sem algeng eru á ungum hrossum í stóði. Ég tel óráðlegt að útiloka góða stóðhesta út af röntgenmælingum, sem eru á gráu svæði og túlka má á ýmsa vegu. Ég held, að erfitt verði að setja mörkin á gráa svæðinu. Ég hef heyrt þá skoðun, að spattprófa eigi stóðhesta, þegar þeir koma til dóms, en hef ekki tekið trú á þá skoðun.

Mikilvægast er að
vanda ákvörðunina

Ágúst Sigurðsson:

Á vegum fagráðs í hrossarækt er í gangi vinnuhópur um heilbrigðisþætti í ræktunarstarfinu sem hefur fjallað um hvernig við eigum að taka skipulega á m.a. frjósemi og spatti. Dýralæknarnir Sigríður Björnsdóttir og Páll Stefánsson hafa starfað með okkur í þessum vinnuhópi. Hvað frjósemina varðar er búið að leggja nokkuð línurnar fyrir næstu árin en spattið er áfram til skoðunar. Rannsókn Sigríðar svarar mjög mörgum spurningum um spattið og gefur sterklega til kynna að hægt væri að lækka tíðni spatts í ungum hrossum með skipulegu úrvali. Þetta er hins vegar spurning um aðferðir og kostnað. Málið stendur þannig núna að við viljum taka okkur tíma í að skoða all ítarlega hversu miklum, og hve skjótum, árangri nokkrar mismunandi leiðir skila. Þetta verður gert með s.k. runureikningum (simuleringum) þar sem líkt er eftir raunverulegu ræktunarstarfi með þennan eiginleika. Við gerum ráð fyrir að hafa svör við þessum spurningum á haustdögum. Á næsta ári stendur til að halda hérlendis alþjóðlega vísindaráðstefnu um heilbrigði hrossa þar sem þessi mál verða m.a. rædd með færustu sérfræðingum. Ákvarðanir um hvernig íslensk hrossarækt muni standa að ræktunarstarfi m.t.t. spatts bíða því fram yfir þessa ráðstefnu. Spattið hefur fylgt hrossunum okkar frá örófi alda eins og rannsóknir Sigríðar leiddu í ljós og því skiptir eitt ár til eða frá litlu. Meiru er um vert að vanda ákvarðanatöku í þessum efnum.

Breytt stefna
komin 2005

Kristinn Guðnason:

Rannsóknir á spattti eru ekki enn orðnar nógu miklar til að hægt sé að grípa til aðgerða nú þegar. Fagráð í hrossarækt hefur tekið þá stefnu að safna frekari rannsóknum og taka endanlega ákvörðun í málinu á næsta ári, árið 2004, og koma þeirri stefnu til framkvæmda árið eftir, árið 2005.

Mér finnst líklegast, að niðurstaðan verði sú, að allir sex vetra stóðhestar, sem fengið hafa fyrstu verðlaun á sýningu, verði röntgenmyndaðir fyrir spatti. Þessi myndataka verði skylda og niðurstöðurnar verði birtar opinberlega. Síðan ráði eigendur stóðhesta og þeir, sem undir hestana leiða, hvort þeir fari eftir þessum upplýsingum eða ekki.

Mín skoðun er, að röntgenmynda verði alla stóðhesta á sama aldri, svo að jafnræði verði með þeim. Ég tel enga ástæðu til að röntgenmynda gamla stóðhesta, því að hjá þeim má líta á spattið sem öldrunarsjúkdóm. Óþarfi er að eyða tíma og fé í að mynda aðra en fyrstu verðlauna hesta, því að hinir eru hvort sem er ekki í neinni notkun.

Mér finnst nauðlegt, að einn fagaðili verði fenginn til að meta allar röntgenmyndirnar, svo að sama túlkun gildi um alla hestana. Fagráð hefur nú tvo dýralækna sér til ráðgjafar á þessu sviði, Sigríði Björnsdóttur og Pál Stefánsson.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 6.tbl. 2003