Varðhundar verzlunarvaldsins.

Greinar

Ástandið í verzlunarmálum höfuðborgarinnar hefur löngum verið aðhlátursefni utanbæjarmanna, en sorgarsaga fyrir Reykvíkinga. Opnun og lokun sölubúða er sniðin að duttlungum kaupmanna og verzlunarfólks.

Viðskiptavinunum er gert að kaupa í matinn, þegar innanbúðarfólki þóknast að vera við. Hefði þó mátt ætla, að einhverju máli skipti, hvenær viðskiptavinirnir geta komið því við að gera sín innkaup.

Sú meginregla hefur því miður gilt, að einmitt þegar fólk hefur frí frá störfum á laugardögum, er verzlunum höfuðborgarinnar harðlæst.

Í hvert skipti sem neytendur hafa kvartað undan þessu fáránlega fyrirkomulagi hafa varðhundar verzlunarvaldsins og fulltrúar þess í borgarstjórn risið upp á afturfæturna og gefið neytendum langt nef.

Einstaka kaupmaður, einyrkinn á götuhorninu, hefur komizt upp með að hafa verzlun sína opna til hagræðis fyrir viðskiptavini sína. Að öðru leyti hefur þjónusta smásöluverzlunarinnar í Reykjavík verið að þessu leyti í hörmangarastíl.

Í bæjarfélögum nágrennisins hafa kaupmenn og bæjaryfirvöld gert sér grein fyrir, að verzlun getur illa þrifizt án viðskipta, enda hafa verzlanir þar verið opnar, almenningi til hagræðis, eins og vera ber.

Fyrir vikið hefur stöðugur straumur höfuðborgarbúa legið til þessara verzlana á laugardögum og öðrum þeim tímum, þegar fólk hefur yfirleitt tök á að gera sín innkaup.

Ekki er fjarri lagi að álíta, að verzlanir á Seltjarnarnesi og í Mosfellssveit hafi séð stórum hópum Reykvíkinga fyrir nauðsynjum á undanförnum árum. Þar hefur ekki ríkt sú stefna í verzlunarrekstri, að bægja eigi kúnnunum frá!

Um síðustu helgi var opnaður nýr stórmarkaður í Seltjarnarnesbæ, rétt utan við landamörk Reykjavíkur. Sú verzlun verður ekki bundin á klafa úreltra reglugerða um opnunartíma sölubúða. Raunar er ekki ólíklegt, að henni sé einmitt valinn staður af þeirri ástæðu.

Sjá nú allir fram á, að enn muni vaxa straumur Reykvíkinga út fyrir bæjarmörk til að kaupa sér í soðið. Þetta mega reglugerðarmennirnir auðvitað ekki heyra nefnt.

Enn á ný senda þeir bænarbréf til bæjaryfirvalda og krefjast stöðvunar á þeirri ósvinnu, að verzlanir taki tillit til viðskiptavina. Duttlungavaldið í höfuðborginni skal og lagt á sveitarfélög í nágrenninu.

Ef að líkum lætur, mun bæjarfélagið á Seltjarnarnesi ekki láta hneppa sig í fjötra afturhalds. Þar verður ekki áhugi á að hverfa aftur til verzlunarhátta valdboðsins.

Í nútímaþjóðfélagi er það þjónustan, samkeppnin og frjálsræðið, sem situr í fyrirrúmi, enda er flestum ljóst, að frjáls verzlun er einn af hornsteinum velmegunar og framfara.

Ef reykvískir kaupmenn hafa áhyggjur af nýjum stórmarkaði á Seltjarnarnesi, sem dragi til sín viðskipti í stórum stíl, eiga þeir aðeins eitt svar: Þeir eiga að rýmka opnunartíma sinn, mæta nýrri samkeppni í skjóli eigin getu og þjónustu.

Reglugerðir og þrælalög eru engin vörn, einfaldlega vegna þess að viðskiptavinirnir, reykvískir neytendur, láta ekki bjóða sér upp á slíkt. Úreltar reglugerðir um fáránlegt fyrirkomulag á opnunartíma sölubúða mega syngja sitt síðasta. Viðskiptavinurinn á að ráða.

Jónas Kristjánsson.

DV