Varðveizla fortíðar

Greinar

Hver vikan, sem líður, staðfestir betur, að nýja ríkisstjórnin rekur hagstefnu, sem kenna má við Stefán Valgeirsson. Í megindráttum felst stefnan í að varðveita fortíðina gegn framtíðinni. Þetta kemur fram í ýmsum myndum, sem hafa smám saman verið að koma í ljós.

Unnt er að lýsa stefnunni á ýmsan hátt eftir hliðum hennar, sem horft er á hverju sinni. Síðustu dagana hefur hún komið í ljós í kröfum um, að þjóðfélagið, það er skattgreiðendur, styrki verzlun kaupfélaga í strjálbýlinu og rekstur nokkurra hreppa á svipuðum stöðum.

Þegar slíkum kröfum er bætt við fyrri kröfur um, að styrkt verði frystihús á sömu slóðum, og gjarna í eigu aðildarfélaga Sambands íslenzkra samvinnufélaga, má segja, að þetta sé um leið ákveðin tegund byggðastefnu, það er að segja sú, sem horfir til fortíðarinnar.

Ekki er eingöngu hægt að líta á þetta sem byggðastefnu, því að hún tengist almennri velferðarstefnu fyrirtækja, hvort sem þau eru í þéttbýli eða strjálbýli. Samkvæmt þeirri stefnu er eðlilegt, að ríkið grípi í taumana, ef fyrirtækjum gengur illa í lífsins ólgusjó.

Fólk lítur þá á það sem óbærilegan vanda, að starfsliði fækki hjá fortíðarfyrirtækjum, jafnvel þótt stöðugt sé verið að stofna fyrirtæki á framtíðarsviðum og slík fyrirtæki séu að færa út kvíarnar. Suðurnesjamenn vilja til dæmis ekki minnka hallærisrekstur í fiskvinnslu.

Hinar ýmsu hliðar stefnunnar sameinast í heildarmynd, sem sýnir stefnu, er berst gegn röskun í atvinnurekstri. Hún er á móti því, að fyrirtæki leggist niður. Hún vill ekki, að atvinna færist til, og alls ekki, að hún færist milli landshluta. Þetta er fortíðardýrkun.

Þótt ástæða sé til að hafa verulegar áhyggjur af miklu gengi fortíðarstefnu þessa dagana, er samt hægt að fagna því, að hún kom ekki í veg fyrir atvinnubyltingar fyrri áratuga þessarar aldar. Verra hefði verið, ef núið hefði verið fryst fyrr, til dæmis um síðustu aldamót.

Oftast renna hugsjónir og hagsmunir saman í órjúfanlega heild í verndarstefnu fortíðar gegn ásókn framtíðar. Þeir, sem reka eða starfa við fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög, er gengur illa, vilja auðvitað, að stóri bróðir hjálpi sér. Og þeir æpa miklu hærra en hinir.

Þetta tengist svo hagsmunum Sambands íslenzkra samvinnufélaga, sem hefur tapað miklu fé að undanförnu. Aðildarfélög þess eru á kafi í frystingu og dreifbýlisverzlun, svo að ekki er nein furða, þótt fortíðarverndin njóti velvildar í stjórnmálum landsins.

Sérstakir fyrirgreiðslusjóðir, sem stundum eru kallaðir skussasjóðir, eru eðlilegar afleiðingar af vinsældum fortíðarstefnunnar. Ennfremur verður ljóst, hvers vegna ríkisstjórnin leggur ofurkapp á að lækka vexti, þótt fyrri vextir hafi ekki halað inn lánsfé.

Stefán Valgeirsson og atvinnutrygginarsjóður hans eru auðvitað einkennistákn stjórnarstefnu, sem hefur fortíðarvarðveizlu eða frystingu á núinu að meginmarkmiði. Í ljósi þess ber að skoða gífurlegt hól, sem formaður Alþýðubandalagsins hefur hlaðið á Stefán.

Í leiðurum þessa blaðs hefur oft verið útskýrt, hvernig allir flokkar hafa í valdastóli stundað fortíðarstefnu Framsóknarflokksins. Munurinn á síðustu ríkisstjórn og þessari er, að sú fyrri fylgdi stefnu Framsóknarflokks, en hin síðari rekur róttækari stefnu Stefáns.

Efnahagsvandi þjóðarinnar felst einkum í, að stór hluti hennar sættir sig við fortíðarstefnuna eða styður hana beinlínis, ýmist í mildri eða róttækri útgáfu.

Jónas Kristjánsson

DV