Varðveizla ímyndar

Greinar

Ráðamenn Vesturlanda hafa tekið fálega sjálfstæðisyfirlýsingum þjóðþinganna í Slóveníu og Króatíu og sumir hverjir hafa hreinlega harmað þær. Bandaríkjastjórn segist ekki muni viðurkenna þessi ríki, og ríki Evrópubandalagsins hafa siglt í kjölfar stóra bróður.

Við slíkum viðtökum mátti búast. Ráðamenn Vesturlanda hafa einnig neitað að styðja við bakið á þjóðum Eistlands, Lettlands og Litháens, þótt þeir hafi verið varfærnari í orðavali í málum Eystrasaltsríkjanna en ríkja Júgóslavíu. Menn vilja ekki fleiri landamæri.

Ekki er langt síðan formaður þingflokks framsóknarmanna kallaði sjálfstæðishreyfingar Eystrasaltsríkjanna “mótþróalið” og utanríkisráðherra Svía hrósaði Sovétstjórninni fyrir umburðarlyndi og varkárni gagnvart þessum “minnihlutahópi öfgamanna”.

Þegar vestræn sjónarmið gagnvart þjóðum Eystrasalts eru svona krumpuð, er ekki von á góðu gagnvart þjóðum Júgóslavíu, sem virðast okkur fjarlægari. Samt er ekki umtalsverður munur á rétti Slóvena og Króata til sjálfstæðis og rétti Eista, Letta og Litháa.

Eystrasaltsríkin voru að vísu lögð undir Sovétríkin með einhliða ofbeldi Rauða hersins og sæta núna einhliða ögrunum vopnaðra sveita frá Sovétríkjunum. Júgóslavía var mynduð á flóknari hátt úr rústum austurrísk-ungversku og tyrknesku fjölþjóðaríkjanna.

Íbúarnir voru ekki spurðir álits, þegar sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar ákváðu að telja sér trú um, að ein Júgóslavía yrði friðsælli nágranni en sérstök ríki einstakra þjóða. Þeir hafa raunar fyrst fengið tækifæri til þess núna og ekki villt á sér heimildir.

Vestrænir stjórnmálamenn hafa enga sagnfræðilega heimild til að ímynda sér, að unnt sé að halda Júgóslavíu saman. Mjög sérstök skilyrði þurfa að vera fyrir því, að fjölþjóðaríki hangi saman. Þau eru gerviríki, sem eru siðferðilega og andlega háð samþykki íbúanna.

Júgóslavía er pólitískur tilbúningur, ímyndun af samningaborði stjórnmálamanna. Ríkið spannar mörg tungumál og nokkur trúarbrögð. Slík fjölbreytni rúmast ekki í einu ríki og hrópar á skiptingu landsins eftir tungumálum og trúarbrögðum, svo sem nú er að gerast.

Sagnfræðin kennir okkur, að tunga og trú eru öflugustu sameiningar- og sundrungaröfl nútímans. Fjölþjóðaríki liðast sundur í einingar sínar, þegar lýðræði kemst á það stig, að fólkið getur sjálft ákveðið að verða eigin gæfu smiðir. Það er nú að gerast í Júgóslavíu.

Á sama tíma og slík hreinsun á sér stað, sameinast ríki svo í fríverzlunar- og efnahagsbandalögum til verkefna, sem eru þjóðríkjum ofviða. Ekki er lengur rúm fyrir fjölþjóðaríki í þessu mynztri þjóðríkja annars vegar og fríverzlunar- og efnahagsbandalaga hins vegar.

Það er kannski ekki von, að evrópskir stjórnmálamenn skilji þetta, úr því að þeir muna ekki einu sinni í Salzburg, hvað þeir sögðu vikunni fyrr í Lúxemborg, svo sem Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við. Gæðastaðall fjölþjóðastjórnmála er tilfinnanlega lágur.

Tilraunir vestrænna leiðtoga til að halda ímyndinni um Júgóslavíu munu í bezta falli verða árangurslausar og í versta falli hvetja hinn serbneska Júgóslavíuher til að reyna að beita Króata og Slóvena meira ofbeldi en Rauði herinn hefur beitt í Eystrasaltsríkjunum.

Ef Ísland verður beðið um að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu og Króatíu, er rétt að játa því á sama hátt og gagnvart Litháen. Það verður okkur til sóma og gæfu.

Jónas Kristjánsson

DV