Varhugaverðar ráðagerðir

Greinar

Nýja ríkisstjórnin hyggst halda áfram á sömu braut og gamla stjórnin í útþenslu ríkisbáknsins á kostnað annarra þátta þjóðfélagsins, svo sem atvinnulífs og fjölskyldulífs. Ríkið er á þessu ári óvenjulega þungur baggi á þjóðinni og verður enn þyngri á hinu næsta.

Þetta má sjá í beinhörðum tölum um hlutfall skatttekna ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu. Í fyrra var það 23%. Í ár verður það 25,3%. Af sáttmála hinnar nýju stjórnar má ráða, að það verði 26,8% á næsta ári. Þetta er samtals 3,8% aukning á aðeins tveimur árum.

Þetta felur í sér, að gamla ríkisstjórnin lagði á þessu ári mánaðarlegan 7.500 króna aukaskatt á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ennfremur, að nýja ríkisstjórnin hyggst að auki leggja 4.600 króna mánaðarlegan aukaskatt á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Alls er þetta um 12.000 króna aukning á hverja fjölskyldu á tveimur árum. Á næsta ári situr því hver fjögurra manna fjölskylda uppi með nærri 150.000 króna meiri skattgreiðslur en ella hefði verið. Dýrt spaug er að hafa ríkisstjórnir, sem eru örlátar á annarra fé.

Ef haldið yrði áfram á sömu braut, yrði ekkert eftir í landinu nema ríkið eitt, að einungis tveimur áratugum liðnum. Slíkt er auðvitað óframkvæmanlegt, en sýnir sem talnaleikur, hversu alvarlegur raunveruleiki er að baki ofangreindra hlutfallstalna um skattheimtu.

Ríkið var á svipaðri óheillabraut árin 1980 til 1982, þótt mun hægar færi. Stjórnmálamenn báru árið 1982 gæfu til að snúa dæminu við og skera hlutdeild ríkisins í þjóðfélaginu niður í 23­24%. Það hlutfall hélzt svo óbreytt allt fram á þetta síðasta og versta ár.

Eðlilegt er, að hlutdeild ríkisbúsins í þjóðarbúinu haldist óbreytt milli ára og um langt árabil. Með óbreyttu hlutfalli tekur ríkið, eins og aðrir, þátt í fjárhagslegri gleði og sorg þjóðarinnar. Með hækkuðu hlutfalli neitar ríkið slíkri þáttöku af sinni hálfu.

Ríkisstjórnum ber að setja sér og ríkinu ákveðin mörk í þessu efni, til dæmis skattheimtu upp á 23% af landsframleiðslunni. Til viðbótar við hana kemur svo skattheimta sveitarfélaga, svo að þáttur hins opinbera fer samt í 30% og má það teljast ærið hlutfall.

Ef markmið af þessu tagi eru ekki sett, er hætt við, að ráðamenn láti vaða á súðum í ýmissi óskhyggju, fyrirgreiðslu og atkvæðakaupum, svo sem handboltahöll, skipasmíða-ríkisábyrgð og atvinnutryggingasjóði útflutningsgreina, svo að nýleg dæmi séu nefnd.

Ef óskhyggjan, fyrirgreiðslan og atkvæðakaupin eru framkvæmd, leiðir það oft til hækkunar á hlutdeild ríkisbúsins af þjóðarbúinu og gerir atvinnulífinu erfiðara fyrir sem dráttardýri ríkisvagnsins. Það hagnast minna en ella á rekstrinum og tapar jafnvel á honum.

Þetta hefnir sín á stjórnmálamönnunum eins og öðrum. Ofkeyrsla á hlutdeild ríkisins leiðir til stöðnunar eða minnkunar á kökunni, sem er til skiptanna milli ríkis, atvinnulífs og fjölskyldna. Minni keyrsla mundi efla getu atvinnulífsins til að stækka köku þjóðarbúsins.

Mistök síðustu ríkisstjórnar hafa þegar verið gerð og verða ekki tekin aftur. En mistökin, sem hinn nýi fjármálaráðherra ætlar að gera með stuðningi ríkisstjórnarinnar, hafa hins vegar enn ekki komizt til framkvæmda, svo að enn er tími til að vara alla við.

Ráðgerð aukning skatta á næsta ári um hálfan fjórða milljarð er þeim, sem að henni standa, varhugaverð byrði, er verður hættuleg í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV