Varnarsigur viðskipta

Greinar

Samkomulag Bandaríkjanna og Evrópusamfélagsins í alþjóðlega tollamálaklúbbnum GATT um aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum mun bæta lífskjör um alla heimsbyggð. Almenningur mun fá aðgang að ódýrari vörum og þjónustu en ella hefði orðið og atvinna mun aukast.

Samkomulagið er útvötnuð útgáfa af göfugu markmiði frá upphafi viðræðnanna í GATT. Árum saman hefur dregizt að fá niðurstöðu og oft legið við, að tilraunin færi alveg út um þúfur. Niðurstaðan er fyrst og fremst varnarsigur, því að án hennar hefði ástandið versnað.

Ef ekki hefði náðst samkomulag, eru mestar líkur á, að gagnkvæmar hótanir um aukna innflutningsmúra og refsiaðgerðir hefðu leitt til minni alþjóðaverzlunar. Samkomulagið dregur úr líkum á stórum og smáum viðskiptastyrjöldum og felur þannig í sér varnarsigur.

Hinn beini hagnaður af niðurstöðunni er mestur fyrir þær þjóðir, sem mest eru sérhæfðar í atvinnuháttum og reiða sig mest á milliríkjaverzlun. Einna fremstir í þeim flokki eru Íslendingar. Landið væri óbyggilegt, ef við hefðum ekki erlendan markað fyrir sjávarafurðir.

Nú er ljóst, að verndarstefna heldur ekki að nýju innreið í samskipti þjóða. Tollar og aðrar viðskiptahindranir gegn alþjóðlegri fiskverzlun munu því ekki aukast, heldur minnka á ýmsum sviðum. Lífskjör Íslendinga munu því batna í kjölfar samkomulagsins í GATT.

Vafasamt er, að ríkin í GATT treysti sér í náinni framtíð til að stíga fleiri skref í átt til fríverzlunar. Þau eru búin að hafa svo mikið fyrir þessu síðasta skrefi, að kjarkur til frekari afreka hefur að mestu horfið. Ráðamenn munu sætta sig við það litla, sem náðst hefur.

Vinnubrögðin að baki samkomulagsins í GATT eru líka orðin úrelt. Þau felast í, að ríki setja tilboðspakka á samningaborðið, þar sem þau bjóða eftirgjafir gegn eftirgjöfum. Í þessu felst sú ranga hugsun, að eftirgjafir og ósigur felist í opnun markaða fyrir útlendinga.

Þvert á móti græða þjóðir á báðum hliðum málsins. Þær græða á því að fá aukinn aðgang fyrir sérhæfðar vörur sínar á erlendum markaði. En þær græða ekki minna á því að opna sinn markað fyrir sérhæfðar vörur annarra. Það lækkar vöruverð í landinu og bætir lífskjör.

Í viðræðum um fríverzlun hafa ríkisstjórnir hingað til ekki komið fram sem umboðsmenn neytenda í löndum sínum, heldur sem umboðsmenn sérhagsmuna á borð við landbúnað. Frekari árangur næst varla í fríverzlun, fyrr en ráðamenn láta af þessu brenglaða viðhorfi.

Athyglisvert er, að íslenzk stjórnvöld hafa undirritað ágætan samning um aukna fríverzlun á hinu svonefnda Evrópska efnahagssvæði án þess að hafa gert neina tilraun til að standa við samninginn. Margir mánuðir hafa liðið, án þess að birzt hafi lagafrumvarp um það.

Einnig er athyglisvert, að gert er ráð fyrir, að málið verði afhent landbúnaðarráðuneytinu til meðferðar. Það er eins og að fela samtökum innbrotsþjófa að setja upp þjófavarnarkerfið. Engin ríkisstofnun gengur lengra í sérhagsmunagæzlu en einmitt landbúnaðarráðuneytið.

Ekki er hægt að búast við, að ríkisvaldið taki betur við sér, þegar kemur að staðfestingu GATT-samkomulags. Hálf þjóðin vill raunar láta fjölþjóðasamninga víkja fyrir sérhagsmunagæzlu. Okkur fer ekki vel að kvarta yfir fjórðungs stuðningi Rússa við Zhírínovskí.

Varnarsigur hefur náðst gegn alræði sérhagsmuna heimsins. Hann dregur úr möguleikum ríkisstjórna og sérfræðinga þeirra á að spilla lífskjörum fólks.

Jónas Kristjánsson

DV