Fjórtándu aldar klaustrið í Rozat hefur orðið fyrir skemmdum og sama er að segja um fimmtándu aldar virkið í Sokol. Villa Rastic og Sorkocevic-höllin í Dubrovnik hafa einnig orðið fyrir skemmdum. Eyðilagzt hafa Villa Gradic og Villa Bozdari við Dubrovnik.
Þessi menningarsögulegu hús á strandlengjunni við Dubrovnik höfðu ekkert hernaðarlegt gildi, fyrr eða síðar. Þau voru látin í friði af hermönnum Hitlers í síðari heimsstyrjöldinni og áður af hermönnum Napóleons og enn þar á undan af hermönnum Tyrkjasoldáns.
Villimenn fyrri alda létu í friði Dubrovnik, perlu Adríahafsins, hverrar þjóðar sem þeir voru. Það þarf tuttugustu öldina og Júgóslavíuher til að ráðast að menningarsögunni á þessu svæði. Að því leyti eru Serbarnir, sem stjórna hernum, ólíkir öðrum villimönnum.
Serbastjórar eru að þessu leyti líkir Rauðu herdeildunum í Kína og Rauðu khmerunum í Kambódsíu. Allir þessir hópar eiga það sameiginlegt að vera kommúnistar. Villimenn þurfa að vera haldnir trúarbrögðum af því tagi til að geta ráðizt gegn menningarsögunni.
Herforingjar Júgóslavíu eru undantekningarlítið Serbar og sannfærðir kommúnistar af gamla skólanum, alveg eins og Milosevic, forseti Serbíu, og aðrir ráðamenn Serbíu. Þetta herskáa smáríki Balkanskaga er síðasti útvörður útþenslustefnu kommúnisma í Evrópu.
Athyglisvert er, að Atlantshafsbandalagið er bjargarlaust í máli þessu. Það stafar af, að Bandaríkjastjórn hefur stutt sambandsstjórn Serba í Belgrad gegn sjálfstæðishreyfingum Króata og Slóvena, af því að Bandaríkjastjórn hefur sjúklegt dálæti á sambandsríkjum.
James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var síðast í sumar í Belgrad að lýsa stuðningi við sambandsstjórnina og vara ráðamenn Króatíu og Slóveníu við mótþróa. Þetta er í stíl við stuðning Bandaríkjastjórnar við kommúnistann Gorbatsjov í Sovétríkjunum.
Til skamms tíma reyndi Bandaríkjastjórn að koma í veg fyrir sjálfstæðisbrölt Eystrasaltsríkjanna og talaði niðrandi um lýðræðissinna í Rússlandi, einkum Jeltsín, sem síðar varð Rússlandsforseti. Bandaríkjastjórn heldur enn í dag dauðahaldi í fylgislausan Gorbatsjov.
Stuðningur Bandaríkjastjórnar við yfirlýsta kommúnista í Austur-Evrópu veldur því, að tímabært er að rifja upp sögu Atlantshafsbandalagsins og spyrja, hvort það hafi ekki gengið sér til húðar, þegar forusturíki þess leggst á sveif með villimönnum kommúnismans.
Evrópubandalagið er ekki miklu skárra. Það hefur sí og æ reynt að koma á sáttum milli Serba og Króata, með þeim árangri, að Júgóslavíuher hefur sí og æ fært sig upp á skaftið. Þannig fer, þegar reynt er að rökræða við villimenn, sem líta á rökræður sem ræfildóm.
Auðvitað á Vestur-Evrópa ekki að vera að dekstra villimenn af trúarflokki kommúnista, heldur taka einarða afstöðu gegn þeim, ekki bara í orði, heldur fyrst og fremst í verki. Ráðamenn Serba verða til vandræða alla tíð, þangað til þeir verða hraktir frá völdum.
Árás kommúnista á menningarsöguna í Króatíu lýsir sama hugarfari og sjá má í umgengni kommúnista Austur-Evrópu við umhverfið. Það þarf kerfisbundna villimenn til að eyðileggja vistkerfið á eins hroðalegan hátt og sjá má í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum.
Varnarstríð Króata gegn síðustu leifum þjóðskipulags, sem er fjandsamlegt manninum, menningarsögunni og náttúrunni, er varnarstríð okkar allra.
Jónas Kristjánsson
DV