Vasatölvumenn og -tölur.

Greinar

Margt er skrýtið í kýrhaus kosningabaráttu og stjórnarmyndunartilrauna. Eitt hið merkilegasta er, að við stjórnarmyndun fer mestur tími í að reikna, hvaða tölur komi út úr kosningaloforðum, sem flokkarnir gáfu fyrir kosningar.

Á samningafundum stjórnmálaflokkanna bar einna mest á svokölluðum efnahagssérfræðingum, það er að segja mönnum, sem kunna á vasatölvur. Verkefni þeirra var að reikna margvísleg dæmi, sem stjórnmálamennirnir voru að velta milli sin.

Ekki hvarflar að neinum, að stjórnmálaflokkarnir gætu haft not af mönnum með vasatölvur, þegar þeir búa til kosningaloforð og stefnuskrár fyrir kosningar. Það gæti sparað töluverða vinnu í tilraunum til stjórnarmyndunar eftir kosningar.

Hin raunverulega ástæða gildandi kerfis er sú, að stjórnmálaflokkarnir kæra sig ekkert um að láta reikna kosningaloforðin. Þeir vilja bara geta slegið fram fullyrðingum um, að þeir muni útvega 80% húsnæðislán til 42 ára.

Mennirnir með vasatölvurnar gætu auðveldlega upplýst loforðasmiðina um, að slík húsnæðislán kosti gífurlegar fjárupphæðir, sem einhvers staðar verði að taka og þá á kostnað einhvers annars, sem ekki væru þá til peningar fyrir.

Staðreyndir af slíku tagi henta ekki stjórnmálamönnum fyrir kosningar, þegar þeir eru að gera hosur sínar grænar fyrir almenningi. Þær koma þá fyrst til skoðunar, þegar stjórnmálamennirnir neyðast til að reyna að mynda ríkisstjórn.

Hitt er svo annað mál, að kjósendur gætu, ef þeir vildu, vanið stjórnmálamenn af þeim ósið að slá fram marklausum loforðum fyrir kosningar og kalla þau stefnuskrá. Kjósendur gætu beðið um vasatölvutækt innihald.

Annað athyglisvert atriði er, að vasatölvumenn eru misjafnlega frjálslyndir í spádómum, eftir aðstæðum hverju sinni. Þeir gefa út þjóðhagsspár einu sinni eða oftar á ári, en geta nú ekki spáð kjaraskerðingunni.

Fyrir stjórnarmyndunartilraunir höfðu stjórnmálamenn í höndunum þjóðhagsspá um, að þjóðartekjur á mann mundu minnka um 8% samtals árin 1982 og 1983 og að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi minnka um 8-9% árið 1983.

Eftir stjórnarmyndunartilraunir virðist nánast ókleift að fá upplýsingar um, hvaða áhrif stjórnarsáttmálinn muni hafa á kaupmátt ráðstöfunartekna, í hreinum tölum reiknað, hvort kjaraskerðingin sé 3% eða 30%.

Óneitanlega væri fróðlegt að vita, hver sé kjaraskerðing stjórnarsáttmálans sérstaklega og einnig samanlögð kjaraskerðing þeirra tveggja ríkisstjórna, sem skipt var á í síðustu viku. Það kæmi sér vel fyrir fólk að vita þetta.

Í upplýsingaskortinum fara atvinnulygarar stjórnmálaflokkanna á kostum. Á einum stað er talað um 30% kjaraskerðingu og á öðrum um 3% kjaraskerðingu, sem sé í rauninni kjarabót miðað við fyrri 8-9% kjaraskerðingu.

Auðvitað kæmi sér vel fyrir fólk að vita, hvað vasatölvurnar segja um þetta mál, hver sé þeirra kjaraskerðingarspá. Það kæmi sér vel að hafa spá til að byggja á gagnráðstafanir, svo sem sölu á bíl eða íbúð.

Vasatölvur, vasatölvumenn og tölur úr vasatölvum eru allt nytsamleg fyrirbæri, sem æskilegt væri að nota meira í stjórnmálum bæði fyrir og eftir kosningar. Bezt væri það fyrir kosningar, en eftir kosningar er betra en ekki neitt.

Jónas Kristjánsson

DV