Vatnajökulsvegur

Frá Grágæsadal um Hvannalindir og kvíslar Jökulsár á Fjöllum að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

Í lok átjándu aldar var reynt að finna leið milli Austurlands og Suðurlands. Fyrstur varð Pétur Brynjólfsson árin 1794 og 1797 og reið þá fyrir sunnan Hvannalindir og varð þeirra ekki var. Pétur Pétursson fór leiðina 1833 og var kunnugt um ferð nafna síns. Fann hann Hvannalindir í leiðinni. Síðan reið Björn Gunnlaugsson kortagerðamaður hér um 1838-1839 og færði Vatnajökulsveg inn á kort sitt. Það var samt ekki fyrr en 1880, að menn voru aftur á ferð á þessum slóðum. Biskupaleið, sem sögur voru um, reyndust vera miklu norðar, milli Kerlingardyngju og Ketildyngju. Vatnajökulsvegur hefur allar aldir verið fáfarinn og nánast óþekktur, enda erfiður vegur um slóðir, þar sem allra veðra er von.

Förum frá Einarsskála í Grágæsadal suður með Grágæsavatni vestanverðu að Kverká. Förum vestur yfir Kverká og síðan yfir Kreppu á hestfærum vöðum og síðan á jeppaslóð norður í skála í Hvannalindum. Förum þaðan eftir jeppaslóð suðvestur í Kverkhnjúkaskarð. Vestan skarðsins förum við vestnorðvestur yfir ótal kvíslar Jökulsár á Fjöllum og komum handan kvíslanna á jeppaslóð í Flæðum. Fylgjum henni suðvestur að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

51,2 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk
Athuga nýtt Holuhraun

Skálar:
Einarsskáli: N64 52.473 W16 11.640.
Hvannalindir: N64 53.300 W16 18.426.

Nálægir ferlar: Grágæsadalur
Nálægar leiðir: Hvannstóðsfjöll, Brúarjökull, Hvannalindir, Kverkfjöll, Gæsavötn, Ódáðahraun, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélags Íslands