Vaxandi húsnæðisrugl.

Greinar

Alltaf er að koma betur í ljós, sem oft hefur verið haldið fram í leiðurum DV, að húsnæðisvandinn stafar af, að skortur er á peningum til ráðstöfunar. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og mikið af tillögum stjórnarandstöðunnar og hagsmunasamtaka forðast þessa staðreynd.

Við skulum líta á það, sem búið er að gera. 200 milljónir króna hafa verið látnar í aðstoð við fólk, sem hefur getað lagt fram svokölluð bónbjargarvottorð. 100 milljónir króna hafa verið notaðar til að lengja lán þeirra, sem byggt hafa á síðustu sex árum.

Þessar samtals 300 milljónir hafa verið fengnar með því að taka af því fé, sem átti að ráðstafa til nýrra húsnæðislána á þessu ári. Vandi þeirra, sem hafa verið að byggja, hefur verið mildaður á kostnað hinna, sem eru nýbyrjaðir eða hafa hug á að byrja að byggja.

Af því að þeir, sem hafa verið að byggja, eiga öflug og afar hávær hagsmunasamtök, en hinir, sem eru nýbyrjaðir eða hafa hug á að byrja, eiga engin slík, hafa hinar svokölluðu lausnir stjórnvalda verið þær, sem hér að ofan greinir. Og enn er heimtað meira af því tagi.

Ef haldið verður áfram í sama stíl, mun unga fólkið neita að taka þátt í sjálfseignarstefnunni og flykkjast í Búseta. Þess eru nú þegar skýr merki. Það verður dæmigerður minnisvarði um Sjálfstæðisflokkinn að hafa staðið fyrir þessu skyndilega andláti sjálfseignarstefnunnar.

Ekki er allt greindarlegra, sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa. Alþýðuflokkurinn vill til dæmis höggva í sama knérunn og búa til peninga. Hann vill taka peninga, sem nú eru notaðir í annað, án þess að gera nokkra grein fyrir, hvernig eigi þá að fjármagna þetta annað.

Alþýðuflokkurinn á það sameiginlegt með mestum hluta stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarfarganinu öllu að vilja haga sér eins og einhver Alexander. Sú hegðun felst í að játa allri kröfugerð og færa síðan til peninga án þess að gera nokkra tilraun til að leysa málið.

Látum það gott heita, sem búið er að gera. Lenging húsnæðislána um mismun vísitalna og kaupgreiðslu og lánskjara var út af fyrir sig sanngjörn aðgerð. Lífeyrissjóðir og bankar munu að eigin frumkvæði feta hliðstæða leið eins og þegar hefur komið fram í fréttum.

Til viðbótar vilja þeir, sem hafa byggt, að vextir verði lækkaðir. Vel getur verið, að ástæða sé til að greiða niður vexti til húsnæðislána í meira mæli en nú er gert, ef það yrði til að bjarga sjálfseignarstefnunni. En þeir eru nú aðeins 4% meðan útlendir vextir eru 10%.

Hitt er svo ljóst af reynslunni, að frekari niðurgreiðsla á húsnæðisvöxtum yrði framkvæmd með því að taka peninga frá þeim, sem eru nýbyrjaðir að byggja eða hafa hug á að byrja á því. Með því að minnka vandann öðrum megin yrði hann stærri hinum megin og heildarsumman óbreytt.

Af reynslunni í fyrra var ljóst þegar í haust sem leið, að ráðagerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum voru vægast sagt hreint rugl. Þar var gert ráð fyrir peningum, sem allir vissu, að voru ekki til. Og enn hefur ekki fundizt ein einasta króna til úrbóta.

Ruglið er orðið svo útbreitt og algert í heimi stjórnmálanna, að menn setja í senn fram tillögur um nýja skatta og aukinn skattaafslátt til bjargar málunum. Það verður á einhverju slíku plani sem stjórn og stjórnarandstaða geta mætzt í hinni stórfenglegu firringu sinni, – alexanderskunni.

Jónas Kristjánsson.

DV