Vaxandi valdsdýrkun

Greinar

Almenningur hefur löngum hneigzt að hollustu við sterka leiðtoga, bæði þá, sem reynzt hafa vel, og hina, sem miður hafa stjórnað. Til dæmis nutu Hitler og Mussolini mikils fylgis og sumpart stjórnlausrar dýrkunar í löndum sínum á mestu velgengnisárunum.

Það er eitthvað við valdið, sem veldur hrifningu fólks og sogar það til sín. Ef ráðherra eða annar valdsmaður heggur í einu vetfangi á hnút í stað þess að reyna að leysa hann á löngum tíma, eru margir reiðubúnir að klappa saman lófunum og lofa hinn sterka leiðtoga.

Þegar hinir sömu valdsmenn átta sig á, að þeir afla sér vinsælda og jafnvel hrifningar með öflugri beitingu valds, eru þeir í hættu staddir. Sumir lenda í vítahring valdafíknar. Þeir ganga æ lengra á þessari braut og lenda að lokum utan ramma þess valds, sem þeir hafa.

Í langri sögu hafa Vesturlönd svo slæma reynslu af sterkum og valdasjúkum leiðtogum, að smíðaðir hafa verið rammar til að hemja þá, hvort sem þeir eru marskálkar, hershöfðingjar, forsetar, forsætisráðherrar, ráðherrar, borgarstjórar eða aðrir valdsmenn.

Íslendingar voru svo hræddir við valdsmenn í fyrndinni, að sagt var, að engan vildu þeir hafa yfir sér nema lögin. Höfðu þeir þá reynsluna af Haraldi harðráða í Noregi. Auðvitað er unnt að ganga of langt í slíkri hræðslu eins og unnt er að ganga of langt í ást á valdi.

Nú á tímum ríkir hér á landi eins og í nágrannalöndunum tiltölulega fastmótað jafnvægi, í fyrsta lagi framkvæmdavalds og í öðru lagi laga, sem meðal annars setja valdinu skorður, svo og í þriðja lagi dómsvalds, er úrskurðar í ágreiningsefnum af margs konar tagi.

Samt virðist svo, að margir kjósendur dýrki framkvæmdavaldið svo mjög, að þeir séu reiðubúnir að fagna í hvert sinn, sem þeirra maður beitir valdi, hvort sem það er innan ramma laga eða utan. Þetta hugarfar afvegaleiðir suma stjórnmálamenn, svo sem dæmin sýna.

Af okkar valdsliði eru Sverrir Hermannsson menntaráðherra og Davíð Oddsson borgarstjóri hættast komnir á þessu sviði. Þeir hafa báðir hvað eftir annað lent að jaðri laga eða yfir hann í sætri nautn valdbeitingar. Og þeir æsast upp af fagnaðarlátum og mótmælalátum.

Segja má, að þeir félagar hafi til skiptist sett allt á annan endann. Fræðsluskrifstofumál Davíðs kom í kjölfar fræðslustjóramáls Sverris, sem kom í kjölfar borgarspítalamáls Davíðs, sem kom í kjölfar lánasjóðsmáls og mjólkurstöðvarmáls Sverris. Og svo framvegis.

Í nýjasta málinu hefur Davíð með óvenju grófum hætti vaðið yfir lög og rétt til að koma í veg fyrir eðlilega starfrækslu Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Hann hefur tekið lögskipuð verkefni frá ráðinu og skipað liði sínu að halda alls enga fundi í stjórn skrifstofunnar.

Í þessu nýtur hann þegjandi samkomulags við hinn valdshyggjusjúklinginn, menntaráðherrann, er hefur ákveðið að láta kyrrt liggja, svo að borgarstjórinn geti farið sínu fram í friði. Sem betur fer er félagsráðherrann í öðrum flokki og hefur blásið til lögmætrar andstöðu.

Álitsgerð frá ráðgjafarþjónustu Lagastofnunar Háskóla Íslands eyðir öllum vafa um, að borgarstjóri hefur farið offari í máli þessu. Vandinn er þó ekki sá mestur, að lög séu brotin, heldur hversu margir kjósendur eru reiðubúnir að fagna lögbrotum sinna valdsmanna.

Ef fjölmennir hópar manna eru sífellt reiðubúnir að fagna valdbeitingu, endar það á, að við sitjum uppi með íslenzkar vasaútgáfur af Hitler og Mussolini.

Jónas Kristjánsson

DV