Vefur lýðræðis og þekkingar

Greinar

Við stöndum á þröskuldi nýrrar byltingar í fjölmiðlun. Í kjölfar prenttækni, útvarps og sjónvarps er komin til sögunnar vefmiðlun, sem mun breyta heiminum eins og fyrri byltingar. Þjóðfélag á öld vefmiðlunar verður vafalaust annað en það var fyrir tíð hennar.

Dagblöð gera suma hluti betur en aðrir fjölmiðlar. Útvarp gerir suma hluti betur en aðrir. Sjónvarp gerir suma hluti betur. Sama er að segja um nýja fjölmiðilinn. Hann hefur sérstöðu, sem gerir hann hæfari en aðra fjölmiðla til að þjóna ýmsum hlutverkum.

Hingað til hefur fólk einkum kynnzt vefmiðlun sem framlengdum armi dagblaða. Undanfarin ár hefur efni sumra dagblaða, þar á meðal DV, verið aðgengilegt í heilu lagi fyrir áskrifendur á vefnum. Þetta er mikilvæg viðbót við dreifingarleiðir hefðbundinna dagblaða.

Nú er komið að því, að vefmiðlun sprengi þennan hefðbundna ramma og nýti sér miðilinn til að bjóða fjölmiðlun, sem er annars eðlis en fjölmiðlun dagblaða, útvarps og sjónvarps. Í gær hóf slík fjölmiðlun göngu sína í Vísi, sem er samstarf DV og nokkurra annarra fjölmiðla.

Gagnvirkni er lykilorð framtíðarinnar í hinum nýja miðli. Hann mun meira en aðrir fjölmiðlar byggja tilvist sína á straumi upplýsinga og skoðana í báðar áttir. Hann auðveldar notendum að taka þátt í þjóðfélaginu með því að veita upplýsingar og setja fram skoðanir.

Með einum músarsmelli fá notendur á skjáinn eyðublað, sem þeir geta fyllt út og sent til baka viðbrögð sín við því, sem þeir hafa verið að lesa og skoða á skjánum. Þannig öðlast hin hefðbundnu lesendabréf nýtt og eflt hlutverk í heimi fjölmiðlunar á vefnum.

Flest bendir til, að hin nýja grein fjölmiðlunar muni efla lýðræði. Hliðvarzla af hálfu fjölmiðla verður minni en áður var, en þátttaka almennings meiri. Notendur geta mótað nýja fjölmiðilinn meira en hina fyrri og um leið haft meiri áhrif á umhverfi sitt og þjóðfélagið.

Fleiri tegundir af gagnvirkni fylgja nýja fjölmiðlinum. Ein hin mikilvægasta er gagnvirkni upplýsinga, sem áður voru einangraðar hver á sínum stað. Nú eru þær óðum að tengjast í kross á alla vegu, þannig að hvert svar kallar á nýjar spurningar, sem framkalla ný svör.

Gagnabankarnir eru ein mikilvægasta greinin á þessum meiði. Um nokkurra ára skeið hafa starfsmenn fjölmiðla, svo sem leiðarahöfundar, haft aðgang að risavöxnum upplýsingsöfnum, sem fletta má í eftir leitarorðum. Þetta hefur leitt til aukinnar nákvæmni í skrifum.

Nú er fólk smám saman að fá aðgang að slíkum bönkum, sem áður voru yfirleitt einkum fyrir innvígða. Sérhæft dæmi um það eru ættfræðigreinar um 11.000 Íslendinga, sem hafa birzt í DV á löngum tíma, og eru nú skyndilega auðsækjanlegar í nýja vefmiðlinum.

Stafrænu gagnabankarnir á vefnum munu breyta vinnubrögðum í þjóðfélaginu. Í skólum verður börnum og unglingum kennt að hafa sig eftir upplýsingum, sem finnast í gagnabönkum. Í fyrirtækjum og stofnunum munu starfsmenn venjast við notkun gagnabanka.

Aukin gagnvirkni milli manna eflir lýðræði og aukin gagnvirkni milli upplýsinga eykur þekkingu. Milli þessara tveggja tegunda gagnvirkni verður svo enn ein tegund af gagnvirkni, þannig að lýðræði og þekking eiga að geta eflzt á víxl í þjóðfélagi náinnar framtíðar.

Við stöndum nú á þröskuldi þessarar byltingar. Það er bjart framundan. Við sjáum fyrir okkur betra þjóðfélag, þar sem lýðræði og þekking sitja í öndvegi.

Jónas Kristjánsson

DV