Vegakortið rifið

Greinar

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur rifið vegakort friðar í Miðausturlöndum með því að fallast í öllum atriðum á tillögur Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, um lausn Palestínumálsins. Aðeins fáar afskekktar byggðir ísraelskra landnema í Palestínu verða rifnar, en þorrinn verður áfram.

Eins og venjulega hundsar ríkisstjórn Bandaríkjanna alla aðila, sem komu að hinu margumrædda vegakorti, sem átti að fela í sér friðarsamning málsaðila og afturhvarf herja Ísraels til landamæranna frá 1967. Hún hundsar Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, fyrir utan Palestínumenn.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, lýsti umsvifalaust stuðningi við þann úrskurð Bush, að farið skuli einhliða að öllum tillögum Sharon. Í þessu máli sem öðrum standa saman þrír trúarofstækismenn, sem telja sig hafa umboð sitt frá Guði fremur en kjósendum og eru í krossferð gegn Íslam.

Samkvæmt úrskurði þremenninganna fá Palestínumenn Gaza-svæðið til baka, enda hefur komið í ljós, að ísraelskir kjósendur og landnemar kæra sig ekki um það. Vesturbakki Jórdans, sem er meginhluti Palestínu, verður áfram meira eða minna undir stjórn Ísraels, sem er að reisa þar mikla múra.

Þetta gerir illt verra í alþjóðamálum. Hafi sumir múslimar hingað til efast um, að Bush og Blair séu í krossferð gegn þeim, þá efast þeir ekki lengur. Baráttusveitir múslima munu eflast, einkum hinar róttækari, sem stunda sjálfsmorðsárásir og önnur hryðjuverk gegn kristnum mönnum á Vesturlöndum.

Ofsatrúarmennirnir þrír hafa sett ráðamenn Evrópuríkja í stóran vanda. Margir eru vanir að taka mikið tillit til vilja Bandaríkjanna sem heimsveldis, þótt þar sé á hæstu stöðum komið til skjalanna trúarofstæki, sem jaðrar við geðbilun. Meðal annars eru íslenzkir landsfeður í klípu.

Mál þetta sýnir, hve varhugavert er að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef Ísland eignast fulltrúa þar, lendir hann í því að þurfa að þjónusta Bandaríkin með því að greiða atkvæði gegn hagsmunum íslams. Sæti í ráðinu mun auglýsa undirgefni Íslands gagnvart Bandaríkjunum.

Miklir tímar ófriðar og hryðjuverka eru fyrirsjáanlegir, ef Bush verður endurkjörinn forseti næsta vetur. Fall hans er eina von mannkyns um betri friðartíð á næstu árum. Það mun einangra hina ofsatrúarmennina, Blair og Sharon, og gera þá tiltölulega áhrifalitla sértrúarmenn í alþjóðamálum.

Meðan þessi ósköp ganga yfir er ekki ástæða fyrir Ísland að taka sér stöðu, sem verður skilin sem aðild að krossferðum þriggja truflaðra trúarofstækismanna, Bush, Blair og Sharon.

Jónas Kristjánsson

DV