Vegasérþarfir víki

Greinar

Skiljanlegar eru sérþarfir vegaverktaka og samgönguráðherra. Verktakana sárvantar verkefni í lægðinni eftir framkvæmdastorm margra ára. Og ráðherrann dreymir um að verða leiðtogi “þjóðarátaks” í vegagerð. Hvorir tveggja veifa freistandi tilboðum.

Fyrst buðust verktakar til að útvega á innlendum markaði lán handa ríkinu til þessa átaks. Þar með þyrftu skattgreiðendur og ríkið ekki að borga framkvæmdirnar fyrr en seinna. Og stjórnmálamenn vilja gjarna fljúga núna, en borga síðar, ­ löngu síðar.

Enda varð samgönguráðherra mjög hrifinn. Hann sá fyrir sér lausn á miklum erfiðleikum í samkeppni sinni við aðra ráðherra um afar takmarkað fé ríkisins. Í þeirri samkeppni hafa hinir einmitt litið öfundaraugum til vegafjárins og reynt að höggva af því hlut.

Greindir menn og Þjóðhagsstofnun sáu þó, að málið var ekki svona einfalt. Mikil þrengsli eru á innlendum lánamarkaði. Ef verktökum tækist með gylliboðum vaxta að yfirbjóða ríkið og aðra lánshungraða í landinu, yrði að sjálfsögðu þeim mun minna eftir handa öðrum.

Samkvæmt þessum upprunalegu hugmyndum hefði þjóðarátakið falist í, að framkvæmdir í landinu hefðu ekki aukizt, heldur hefði vegagerð aukizt á kostnað allra annarra framkvæmda. Slíkt ójafnvægi framkvæmda væri þjóðhagslega afar óhagkvæmt.

Eftir að þetta varð ljóst, kom fram ný hugmynd, sem samgönguráðherra hefur gert að sinni. Hún felst í, að væntanlegar verðlækkanir á benzíni verði frystar. Menn haldi áfram að borga núgildandi verð, en ríkissjóður taki mismuninn til að borga þjóðarátakið.

Þessi leið er þægileg að því leyti, að benzínnotendur verða síður æfir yfir nýrri skattheimtu, ef þeir þurfa ekki að greiða hærra verð, heldur missa eingöngu af verðlækkun, sem þeir eru ekki búnir að fá í hús. Frystiskatturinn verður sennilega ekki tiltakanlega óvinsæll.

Auk þess hefur hún þann kost að draga úr því, að menn fari að nota meira benzín. Hún dregur þannig úr gjaldeyriskostnaði þjóðarinnar. Hátt benzínverð hefur á undanförnum árum dregið úr eftirspurn um allan heim og einmitt valdið verðhruninu, sem við nú njótum.

En þetta er ekki eina hlið málsins. Frysting benzínverðs hvetur til verðbólgu. Ef verðið fær að lækka í friði, hefur það góð áhrif á vísitölur með því að vega upp á móti ýmsum öðrum liðum, sem fara hækkandi. Benzínlækkun mun stuðla að núverandi vinnufriði.

Enn verra er, að frystingin mundi auka spennuna í atvinnulífinu. Þegar eru fyrir fleiri lausar stöður en fólk er til að fylla. Slík umframeftirspurn stuðlar í sjálfu sér að verðbólgu. Ef þjóðarátakið bætist ofan á, er líklegt, að verðbólgan fari aftur á fulla ferð.

Fylgjendur þjóðarátaksins veifa kenningum um, að vegagerð sé afar hagkvæm, því að tækin séu til og asfaltverð sé lágt um þessar mundir. En hliðstæðum kenningum má einnig halda fram um hinar afar nytsömu athafnir, sem yrðu að víkja fyrir þjóðarátakinu.

Þess ber líka að gæta, að svokallaðir útreikningar á hagkvæmni í vegagerð hafa reynzt afar villandi. Reynslan sýnir, að hagkvæmni hefur verið og er enn verið að reikna inn í margs konar vitleysu og jafnvel hreina ævintýramennsku, oft í þágu stjórnmálamanna.

Hagsmunir vegaverktaka og samgönguráðherra eru skiljanlegir, en ættu þó að víkja fyrir þeim þjóðar hagsmunum, að verðlækkun benzíns fái að vera í friði.

Jónas Kristjánsson

DV