Síðasti dómurinn yfir svonefndum Kaptein Kókaín er gott dæmi um héraðsdóm, sem er úti að aka. En hann er ekki sá eini. Í dómum síðustu áratuga má finna ýmis dæmi þess, að mat héraðsdómara sé misjafnt, að sumir þeirra sjá ekki það, sem aðrir sjá og sumir sjá ekki einu sinni það sem allir sjá.
Þetta er annað umkvörtunarefni en það, sem stundum hefur heyrzt um Hæstarétt, þar sem talinn var vera á ferðinni kerfislægur misskilningur á þjóðfélaginu. Af oftrú á kerfinu dæmdi Hæstiréttur til dæmis oft ríkisvaldinu í vil og varð síðan gerður afturreka af æðri dómstólum úti í Evrópu.
Í héraðsdómum kunna hins vegar sumir dómarar ekki lögin, veita magnafslætti eða fara niður fyrir refsirammann, taka til dæmis ekki tillit til, að glæpur sé framinn á skilorði. Aðrir dæma í neðri kanti rammans, af því að þeim ofhasar refsigleði þess Alþingis, sem á sínum tíma setti lögin.
Við verðum auðvitað að sætta okkur við, að í stétt dómara sé tregt fólk og fólk, sem er ekki eins og fólk er flest. En þá þarf líka að vera til aðili eða stofnun, sem vekur athygli dómara á misræmi og reynir að hvetja þá til að fara eftir lögum og ekki reyna að túlka lögin út og suður úr rammanum.
Þetta ætti að hafa vakið næga athygli til þess, að ráðuneyti dómsmála, félag héraðsdómara eða einhver annar ábyrgur aðili láti fara fram úttekt á héraðsdómum og skilgreini, hver sé munurinn á dómvenju einstakra dómara. Þetta þarf síðan að nota til að kippa afvegaleiddum dómurum aftur inn í rammann.
Ef opinber aðili, sem kannar héraðsdóma, kemst að þeirri niðurstöðu á tilgreindu sviði, að refsirammi laganna sé skakkur, er ekkert einfaldara en að snúa sér til Alþingis með rökstuddu bréfi um, að sett verði ný lög, sem löguðu refsirammann með hliðsjón af nýrri yfirsýn góðra manna.
Í stuttu máli sagt skortir aga á héraðsdómurum. Þeir leika lausum hala. Einn þeirra sagði mér, að hann hefði sýknað verktaka af hraðakstri, af því að hann teldi verktaka vera í svo miklum önnum, að ekki væri hægt að ætlast til, að þeir væru á ferðinni á löglegum hámarkshraða eða undir honum.
Ef þessi röksemd er annað og meira en rugl, þarf að koma henni á framfæri við Alþingi, svo að það geti undanþegið ákveðnar stéttir lögum um hámarkshraða í umferð. Ef hún er hins vegar rugl, þarf að vera til einhver, sem kippir í skikkju dómarans og segir honum að fara að hafa gát á sér.
Allt þetta skiptir miklu, af því að virðing hárra og lágra fyrir lögum og rétti er meiri, ef samræmi er milli dóma og þeir eru innan marka laga. Og brýn þörf er á virðingunni.
Jónas Kristjánsson
DV