Frá Bræðraklifi í Ódáðahrauni að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.
Þetta er síðasti hluti Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun, framhald Suðurárhraunsleiðar og Kerlingardyngjuleiðar. Hafragjá er mikilúðleg gjá með hamrabeltum, sem virðast ófær hestum, að undanskildu Bræðraklifi. Rétt norðan Bræðraklifs hefur stundum fundizt vatnsból. Öll leiðin yfir Ódáðahraun er vörðuð. Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði leitaði að vörðunum og fann þær. Mynda misjafnlega gisinn leiðarvísi um þennan forna þjóðveg, sem var í greiðri notkun fram á sautjándu öld, en týndist síðan að mestu. Ingvar Teitsson færði vörðurnar í GPS-net og skrifaði góðan bækling, sem heitir “Biskupaleið yfir Ódáðahraun”.
Byrjum við Bræðraklif í vesturkanti þúsund metra breiðrar Hafragjár í Ódáðahrauni á Biskupaleið, í 540 metra hæð. Hestfær sandbrekka er upp úr gjánni að austanverðu. Við förum til suðausturs undir fjöllunum, en þó sunnan við Veggjafell. Leiðin er að mestu bein, en landið misjafnt undir hóf. Fyrst er þokkaleg leið norðan við Herðubreiðarfjöll. Síðan tekur við ógreiðfært hraun sunnan við Veggjafell að jeppaslóð við Fjallagjá, þar sem gróður heilsar okkur, grávíðir og krækiberjalyng. Síðan förum við um gróðurlita mela að unaðslegu gróðurríki við Grafarlandaá að veginum til Herðubreiðarlinda. Þar verða allir ferðalangar fegnir, sem koma Biskupaleið úr vestri. Við beygjum þar til austurs undir Ferjufjalli, þar sem er elzta ferjustæðið á Jökulsá á Fjöllum.
22,3 km
Þingeyjarsýslur
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Almannavegur.
Skrásetjari: Ingvar Teitsson
Heimild: Ingvar Teitsson