Vegurinn til vítis

Greinar

Venjulegir stjórnmálamenn og illa skaffandi fyrirvinnur vilja láta meta sig eftir góðum vilja sinum til góðra verka, en ekki eftir raunverulegum verkum, sem standa viljanum oft langt að baki. Þetta er samkvæmt enska spakmælinu, sem segir, að vegurinn til vítis sé varðaður góðum áformum.

Ég lofa að drekka ekki á jólunum segir heimilisfaðirinn og meinar það í alvöru. Þegar annað hefur komið á daginn og hann er kominn í vandræði á heimilinu, sýnir samanlögð reynsla ráðgjafarbransans, að hann vill vera metinn af góðum vilja sínum og að strikað sé yfir fótaskort á góðviljanum.

Raunar er ævi stjórnmálamannsins enn flóknari. Hann er ekki bara það, sem hann vill vera og það, sem hann er í raun. Hann er líka það, sem hann þarf að vera til að svara kröfum gengisins, stjórnmálaflokksins og ríkisstjórnarinnar í hans tilviki, en vonds félagsskapar í tilvikum sumra annarra.

Dæmi um þetta er nýr þingmaður, sem áður var talsmaður stúdenta og heimtaði meira fé til háskólans, en greiðir nú atkvæði gegn auknu fé til hans. Á vefsíðu sinni segist hann vera í liði, eins konar fótboltaliði, verði að fylgja sínu liði og ekki samþykkja neitt frá andstæðingum á þingi.

Við þetta bætist, að hefðir lýðræðis segja æskilegt, að stjórnmálamaður sé góðra manna fyrirmynd. Hann eigi helzt að vera eins konar Móses, sem leiðir þjóðina yfir eyðimörkina, unz fyrirheitna landið er í augsýn, eða eins konar Jón Sigurðsson, sem segir á örlagastundu: Vér mótmælum allir.

Þannig búa margar persónur í einum ráðherra, hvort sem hann er heilbrigðisráðherra eða einhver annar. Hann er í senn það, sem hann vill vera; það, sem hann er í rauninni; það, sem hann verður að vera vegna aðstæðna; og það, sem hann ætti að vera, ef hann færi eftir háleitum hugsjónum.

Vegna samsláttar þessara persóna gefur heilbrigðisráðherra ýmis svör, sem fela efnislega í sér, að hann sé góðmenni, sem vilji öryrkjum vel, sé þeim betri en aðrir hefðu orðið, en erfiðar aðstæður á borð við sambandsleysi í stjórnkerfinu og vondur félagsskapur hans hindri fullnustu góðviljans.

Skilja má persónuklofning ráðherrans. En góðmenni fást í kippum. Hrifnari hefðu menn orðið, ef hann hefði barið í borðið í ríkisstjórninni og sagt efnislega: Ég mótmæli allur.

Jónas Kristjánsson

DV