Stefna veiðileyfagjalds í sjávarútvegi fékk stuðning úr óvæntri átt á aðalfundi Granda á föstudaginn. Stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins mælti með slíku gjaldi í ræðu sinni. Það var Árni Vilhjálmsson prófessor, sem gekk þannig fram fyrir skjöldu á minnisstæðan hátt.
Árni vildi, að sjávarútvegurinn innti af hendi eingreiðslu, sem næmi 50-80 krónum á hvert kíló í þorski eða þorskígildi í öðrum fisktegundum. Taldist honum, að þetta mundi kosta Granda 700 milljónir í stofngjald og 50 milljónir í árlega vexti, ef þeir væru 7%.
Stjórnarformaðurinn kom inn á nýstárlegar brautir í röksemdafærslu sinni fyrir veiðileyfagjaldi. Hann taldi gjaldið nauðsynlegt til að gefa sjávarútveginum eins konar vinnufrið, meðal annars fyrir neikvæðri umræðu fólks, þar sem orðið sægreifar kemur iðulega fyrir.
Hann benti á, að einn ráðherra fráfarandi ríkisstjórnar hefði lýst aflaheimildum útgerða sem ránsfeng. Einnig sagðist hann óttast, að fylgismenn veiðigjalds mundu leggjast á sveif með þeim hagsmunaaðilum innan sjávarútvegsins, sem vilja kvóta- eða aflamarkskerfið feigt.
Sú er einmitt raunin, að sjávarútvegurinn hefur sett ofan í umræðunni um þessi mál. Það fer í taugar fólks, að svokölluð þjóðareign skuli ganga kaupum og sölum og jafnvel ganga í erfðir. Einnig sker í augu, að verðgildi seldra skipa fer meira eftir kvóta þeirra en blikki.
Landssamband íslenzra útvegsmanna er helzti málsvari andstöðunnar við veiðileyfagjald. Það hefur smám saman verið að fá á sig stimpil klúbbs sægreifa, sem lifi á forgangi að þjóðareign og illri meðferð þjóðareignar. Landssambandið hefur enda tekið illa kenningum Árna.
Á ytra borði virðist staða sægreifanna vera fremur trygg um þessar mundir. Fráfarandi ríkisstjórn mannaði sig ekki upp í að framkvæma loforð um hert orðalag á þjóðareign auðlindarinnar. Sú ríkisstjórn, sem nú hefur tekið við, er ekki heldur líkleg til slíkra verka.
Utanríkisráðherra er stundum sagður guðfaðir kvótakerfisins og sjávarútvegsráðherra er dyggur fylgismaður hans á því sviði. Þeir munu líklega sjá um, að ríkisstjórnin standi vörð um núverandi ástand og geri á því eins litlar breytingar og hún kemst upp með hverju sinni.
Gott dæmi um það er, að stjórnarsáttmálanum fylgir baksamningur um sjávarútveg, þar sem slett er um 10.000 tonna aukningu á þorski í þá hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sem óánægðastir eru með ríkjandi kvótakerfi, svo að þeir fáist til að hætta að rugga báti sægreifanna.
Vopnaði friðurinn er samt ekki varanlegur. Baksamningurinn felur í sér aukið álag á ofveiddan þorskstofn. Ef þorskstofninn heldur áfram að minnka, er eðlilegt, að eigendur auðlindarinnar fari að ókyrrast enn frekar og vilji draga ábyrgðarmenn kerfisins til ábyrgðar.
Stjórnmálamenn og sægreifar verða taldir bera ábyrgð á, að árum saman hefur ekki verið farið eftir tillögum fiskifræðinga um hámarksafla, og ábyrgð á afleiðingum þessa í minnkandi þorskgengd. Ofveiðin stefnir í slíkt óefni, að kvótakerfið mun um síðir hrynja að innan.
Líta má á framtak formanns Granda sem tilraun til að benda ráðamönnum stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna á að færa víglínuna aftar, þar sem hún verði frekar varin, svo að kvótakerfið verði síður fórnardýr átaka um önnur og afar viðkvæm ágreiningsefni í sjávarútvegi.
Öðrum þræði er svo ræða hans merki um, að veiðileyfagjald á meiri hljómgrunn í greininni en ráðamenn Landssambands íslenzkra útvegsmanna vilja vera láta.
Jónas Kristjánsson
DV