Veiðileyfagjald og byggðakvóti

Greinar

Veiðileyfasinnar hafa sigið hægt og bítandi fram úr gjafakvótasinnum og eru komnir í öruggan meirihluta meðal þjóðarinnar samkvæmt nýjustu skoðanakönnun DV. Veiðileyfasinnar eru í meirihluta í öllum stjórnmálaflokkum landsins nema Framsóknarflokknum.

Stuðningsmenn flokks utanríkisráðherrans og fyrrverandi sjávarútvegsráðherrans, tákngervings kvótakerfisins, eru orðnir einir á báti í stuðningi við núverandi kerfi. Kjósendur Sjálfstæðisflokks hafa snúið við blaðinu og styðja veiðileyfagjaldið í hlutföllunum 61-39.

Umræður á landsfundi sjálfstæðismanna báru merki umskiptanna, þótt ályktun fundarins endurspegli þau ekki. Býsna erfitt er orðið fyrir forustu flokksins að beita sér af hörku gegn breytingum, sem njóta stuðnings eindregins meirihluta kjósenda flokksins.

Einkum verður núverandi spenna erfið fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef á grundvelli hans rís annar flokkur, til viðbótar við flokk Sverris Hermannssonar, með trúverðuga frambjóðendur og stefnu veiðileyfagjalds og sækir fylgi sitt til hefðbundinna kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Kjósendur flokkanna tveggja, sem hafa tekið við fylgi Alþýðubandalagsins, styðja veiðileyfagjald, einkum kjósendur Samfylkingarinnar, þar sem hlutföllin eru 77-23. Núverandi gjafakvóti hefur því hvergi lengur skjól nema í Framsóknarflokknum, þar sem hlutföllin eru 40-60.

Tilfærsla kvóta frá fámennum sjávarplássum til fjölmennari byggða hefur orðið til þess, að byggðastefnumenn sjá ekki lengur vörn í gjafakvótanum gegn tillögum um að tengja markaðslögmál með einhverjum hætti við réttinn til aðgangs að takmarkaðri auðlind.

Þeir, sem ekki aðhyllast markaðsstefnu í sjávarútvegi, hafa í vaxandi mæli hneigzt að byggðakvóta, þótt dæmin sýni, að byggðakvóti hefur einnig lekið brott. Fyrir skammgóðan vermi hafa menn selt fjöregg sjávarplássanna og staðið eftir jafnslyppir og snauðir.

Hugsanlegt er, að sátt náist milli sjónarmiða veiðileyfagjalds og byggðakvóta með því að veiðileyfagjaldið renni að hluta til þeirra byggða, sem standa höllum fæti í baráttunni um réttinn til að veiða það takmarkaða magn, sem leyft er að veiða hverju sinni.

Einnig er hugsanlegt, að afhenda megi þessum sjávarplássum hluta kvótans fram hjá veiðileyfagjaldi. Hagfræðilega séð eru slíkar lausnir allar vondar, en þær kunna að eiga rétt á sér sem pólitísk lausn á viðkvæmu deilumáli um misjafna stöðu fólks eftir byggðum.

Byggðakvótinn hefur þann kost að njóta stuðnings þjóðarinnar í hlutföllunum 74-26 samkvæmt nýjustu skoðanakönnun DV. Hann nýtur raunar meiri stuðnings en einstakar aðferðir við veiðileyfagjald, allt frá þjónustugjöldum á útgerðir yfir í uppboð á kvóta.

Þótt veiðileyfagjald og byggðakvóti séu tvær ólíkar leiðir, eiga þær það sameiginlegt, að fylgið við þær byggist á réttlætistilfinningu, annars vegar fyrir jafnrétti borgaranna og hins vegar fyrir tilverurétti byggðanna, enda hafa margir bæði sjónarmiðin í senn.

Stuðningsmenn veiðileyfagjalds þurfa að finna aðferð, sem hægt er að fá sem flesta til að sameinast um. Með því að blanda slíkri aðferð saman við byggðakvóta er kominn pakki, sem líklegt er að afli sér víðtækari samstöðu fólks en aðrar leiðir til lausnar málsins.

Kjósendur telja sennilega ekki vera hlutverk sitt að kafa dýpra í hlutina en að heimta réttlæti og vilji heldur fela sérfróðum aðilum hina tæknilega útfærslu.

Jónas Kristjánsson

DV