Veiðileyfin ekki umflúin.

Greinar

Hugmyndin um úthlutun og sölu veiðileyfa eða veiðikvóta nýtur vaxandi fylgis um þessar mundir. Í dagblöðunum birtast greinar þjóðkunnra manna, sem reyna að gera sér og öðrum grein fyrir, hvernig framkvæma megi hugmyndina.

Markmið hugmyndarinnar er að koma á jafnvægi í sókn og afla, svo að sjávarútvegurinn verði rekinn með sem minnstum tilkostnaði. Nú er sóknin of mikil, skipin of mörg, en aflinn úr flestum fiskistofnum í hámarki og rúmlega það.

Sumir tala um kvóta, en aðrir um veiðileyfi. Þetta eru í rauninni tvö orð um sama hlutinn, skiptingu takmarkaðs aflamagns. Fyrst er ákveðinn leyfilegur hámarksafli úr fiskistofni og honum síðan skipt niður með ýmsum hætti.

Þeir, sem vilja miðstýringu að ofan, tala um opinbera úthlutun veiðileyfa eða kvóta, til dæmis fyrst til landshluta eða veiðarfæra og síðan til einstakra skipa. Útgáfur af þessu hafa verið reyndar með sæmilegum árangri á loðnu og síld.

Hinir, sem vilja láta markaðslögmálin ráða, tala um sölu veiðileyfa eða kvóta og jafnvel um uppboð þeirra. Þessi aðferð hefur ekki verið reynd, enda er hún nýstárlegri en hin, en ætti að hafa innbyggða hvata umfram hina.

Í seinni tíð er þó mest talað um blöndu beggja aðferðanna, um úthlutun að parti og sölu að parti. Áherzlan fer þó yfirleitt eftir því, hvort menn eru hlynntari miðstýringu eða markaði. En hugmyndin um aukna hagkvæmni sjávarútvegs er hin sama.

Þröstur Ólafsson hagfræðingur, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, kynnti nýlega í blaðagrein nýtt afbrigði hugmyndarinnar, það er að segja úthlutun vinnsluleyfa til fiskvinnslunnar í stað veiðileyfa til útgerðarinnar.

Hann vill skipta leyfilegu aflamagni niður á hafnir eftir vinnslugetu frystihúsa á staðnum, en þessi leyfi séu svo ef til vill framseljanleg innan landshluta eða kjördæma. Skipin megi svo landa, hvar svo sem vinnsluleyfi séu laus.

Að baki þessarar hugmyndar liggur byggðastefna. Hún á að tryggja ákveðið atvinnumagn í öllum sjávarplássum landsins eða að minnsta kosti í öllum kjördæmum. En um leið heldur þetta aftur af nauðsynlegri byggðaröskun.

Ef hugmyndin hefði verið frumkvæmd fyrr á þessari öld, væri nú mikil útgerð úr Skálum á Langanesi og Viðey í Kollafirði. Og binding frá fyrri öldum þýddi útgerð frá Dritvík, Djúpalónssandi og Malarrifi.

Björn Dagbjartsson, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, kafaði nýlega í grein í DV ofan í blandað kerfi úthlutunar og sölu á veiðileyfum eða veiðikvótum. Meginhugmyndinni lýsir hann þannig:

“Leyfilegum hámarksafla af hverri tegund er skipt niður í aflaeiningar, eins konar verðbréf, sem seld eru á opnum markaði. Til að byrja með er útgerðum fiskiskipa selt eða úthlutað aflaeiningum eftir ákveðnum reglum og síðan geta handhafar skipzt á aflaeiningum, selt þær, lánað eða leigt, en verða að tilkynna það stjórnvöldum eða skrifstofu, sem fylgdist með eignarhaldi á veiðileyfum.”

Björn telur þó, að hugmyndin eigi erfitt uppúráttar, því að reynslan sýni, að bæði sjómenn og útgerðarmenn séu logandi hræddir við hana “hversu skynsamleg, sem hún kunni að virðast”. En menn verði þó að horfast í augu við, að veiðileyfi verði ekki lengur umflúin.

Jónas Kristjánsson.

DV