Veiran er ekki í fríi.

Greinar

Sumarfrí í heilbrigðisráðuneytinu valda því, að blóðþegar á Íslandi búa enn við rússneska rúllettu. Frestað hefur verið fram í ágúst eða september að ákveða, hvar og hvernig skuli leita í blóði Blóðbankans að einkennum sjúkdómsins Aids, sem hér er nefndur alnæmi eða ónæmistæring.

Landlæknir hefur fyrir sitt leyti ákveðið, að frá og með næsta hausti verði allt blóð og blóðefni greint, svo að tryggt sé, að hinn nýi og mikli vágestur berist ekki þá leið. Alnæmi berst ýmist með blóði eða sæði. En ekkert samkomulag hefur tekizt um greiningarstaðinn.

Oft hafa menn skroppið úr fríi af minna tilefni en almannavörnum af þessu tagi. Einhvers staðar þarf að koma fyrir greiningu, líklega annaðhvort á Landspítalalóð eða Borgarspítalanum. Ákvörðun um bráðabirgðalausn ætti raunar þegar að hafa verið tekin í ráðuneytinu.

Veirurannsóknastofnun háskólans vísaði til skamms tíma málinu frá sér vegna skorts á aðstöðu. Yfirlæknir stofnunarinnar lagði í staðinn til tíu milljón króna nýbyggingu, sem tekur alltof langan tíma að byggja. En svo virðist sem dregið hafi úr fyrirstöðu stofnunarinnar.

Raunar eru sumir sérfróðir læknar þeirrar skoðunar, að of mikið sé stundum gert úr öryggisþörf á greiningarstöðvum ónæmistæringar. Benda þeir á, að einungis sé eitt dæmi í heiminum um, að heilbrigðisþjónustufólk hafi í starfi smitazt af alnæmi.

Hins vegar eru sérfróðir læknar, sem fjallað hafa töluvert í DV um ónæmistæringu, sammála um, að sízt hafi hér í fjölmiðlum verið ofsagt frá hörmungunum, sem fylgja henni. Hafa þeir hvatt til skjótra og markvissra varna gegn vágestinum, sem fer um heiminn eins og eldur í sinu.

Haraldur Briem smitsjúkdómalæknir sagði í viðtali við DV, að búast mætti við fyrsta sjúklingnum innan tveggja ára. Við værum 2-3 árum á eftir Evrópu, sem væri 2-3 árum á eftir Bandaríkjunum. Þar bera veiruna tvær milljónir manna, sem jafngildir 2000 manns á Íslandi.

Mest er útbreiðslan í Kinshasa í Zaire, þar sem talið er, að annar hver maður beri veiruna. Áætla má, að hundraðasti hver veiruberi fái alnæmi, sem er ólæknandi. Svarti dauði og aðrir illræmdir sjúkdómar veraldarsögunnar blikna í samanburði við þessi ósköp.

Heilbrigðisyfirvöldum ber auðvitað skylda til að sjá strax um, að fólk smitist ekki af völdum blóðgjafar. Hér er enn á því misbrestur, þótt von sé á úrbótum. Ennfremur ber þeim skylda til að fræða almenning rækilega um, hvernig megi forðast ónæmistæringu.

Landlæknir hefur brugðist seint en vel við í þeim efnum. Gefinn hefur verið út bæklingur, sem dreift verður í skóla næsta haust. Þar kemur fram, að fólki ber að forðast lauslæti og nota að öðrum kosti gúmverjur. Þetta eru sömu ráð og læknar hafa gefið hér í blaðinu.

Í framhaldi af bæklingnum þarf að skipuleggja framhaldsfræðslu, svo að merkið sígi ekki eftir fyrstu lotu. Það verður að síast inn hjá fólki, að tímar hins ljúfa lífs eru að baki. Sérstaklega er nauðsynlegt, að lauslátir hommar taki upp aðra lifnaðarhætti.

Nokkurt fé kostar að standa undir fræðsluherferð og nothæfri greiningaraðstöðu. En það er mun ódýrara en að hafa tugi ólæknanlegra sjúklinga á sérstökum sjúkradeildum. Mestu máli skiptir þó, að ráðuneytið komi snöggvast úr sumarfríi. Veiran tekur sér ekki sumarfrí.

Jónas Kristjánsson.

DV