Ekki hefur tekizt á sannfærandi hátt að staðsetja svonefndan kolkrabba í þjóðfélaginu, þrátt fyrir mikla umræðu um hann í bókum, tímaritum og fjölmiðlum. Af mörgum er talið, að hann sé safn nokkurra ætta, sem hafi sölsað undir sig völdin og auðinn í þjóðfélaginu.
Peningar liggja að nokkru leyti í ættum hér á landi eins og annars staðar. Ef Ísland hefur sérstöðu í því efni, þá felst hún í, að íslenzkum peningaættum hefur haldizt verr á fé sínu en útlenzkum. Algengt er, að íslenzk fjármálaveldi hrynji í annarri eða þriðju kynslóð.
Þá er athyglisvert, að margir þeir menn, sem helzt eru sakaðir um að stjórna kolkrabba ættaveldisins, eru sjálfir ættlitlir menn eigin rammleiks. Af ýmsum slíkum ástæðum er ekki sannfærandi að tala um kolkrabbann sem sameiginlegt veldi 14 eða 15 peningaætta.
Rökin fyrir kolkrabbanum verða trúverðugri, þegar þau beinast að samspili ríkisvaldsins og öflugra fyrirtækja, sem blómstra í skjóli einokunar eða fáokunar. Þessi hagsmunatengsli opinbera geirans og einkageirans liggja aðeins að hluta til um þekktar peningaættir.
Ríkisvaldið hefur verndað fyrirtæki með því að slá um þau einokunarrétti eða stutt þau með því að slá um þau fáokunarrétti. Þannig starfa hermangsfyrirtækin Íslenzkir aðalverktakar og Sameinaðir verktakar, svo og Flugleiðir í skjóli einokunar, sem ríkið veitir þeim.
Flugleiðir hafa einkarétt á helztu flugleiðum innan lands og utan, svo og á flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Í krafti einokunar sinnar hefur fyrirtækið smám saman sölsað undir sig mikinn hluta af veltu hliðargreina, svo sem ferðaskrifstofa, hótela og bílaleiga.
Sem dæmi um innilegt samlíf ríkis og Flugleiða má nefna, að af fjórum aðal- og varamönnum, sem samgönguráðherra skipar í Flugráð, eru þrír starfsmenn Flugleiða. Og þegar starf flugmálastjóra losnar, þykir ráðuneytinu sjálfsagt að skipa í það Flugleiðamann.
Í sumum tilvikum hefur ríkið stuðlað að fáokun, svo sem í olíusölu, þar sem ríkið hefur haft forustu um, að allir keyptu sem einn af Sovétríkjunum. Í öðrum tilvikum hefur einokun eða fáokun fremur blómstrað vegna dugnaðar forstjóra, svo sem í Eimskipafélagi Íslands.
Yfirburðastaða á borð við þá, sem hermangsfyrirtækin hafa, svo og Flugleiðir og Eimskip, olíufélögin og tryggingafélögin, hefur í flestum tilvikum verið notuð til að kaupa hlut í öðrum fyrirtækjum eða kaupa þau upp. Þannig varð til hinn margumtalaði kolkrabbi.
Það er pólitísk ákvörðun, hvort hér sé slíkur kolkrabbi. Einn frægasti kolkrabbinn er í andarslitrunum, einkun vegna þess að teknir voru upp raunvextir í þjóðfélaginu. Samband íslenzkra samvinnufélaga var orðið forréttindum svo vant, að það þoldi ekki raunvexti.
Með því að afnema einkarétt á hermangi, flugi og flugafgreiðslu má höggva þann kolkrabba, sem nú blómstrar. Með frelsi til samkeppni af hálfu erlendra skipafélaga, tryggingafélaga, olíufélaga og flugfélaga má koma í veg fyrir, að innlendir risar misnoti aðstöðu sína.
Við sjáum þetta nú þegar í tryggingunum. Þar hafa félög, sem áratugum saman hafa veinað um of lág iðgjöld, allt í einu getað lækkað þau. Það stafar af, að komið er á markaðinn nýtt félag, sem er utan samtryggingarkerfis fáokunarinnar, sem hér var fyrir.
Hinn raunverulega kolkrabba er að finna í hugarfari kjósenda, sem sætta sig við, að umboðsmenn þeirra reki velferðarkerfi stórfyrirtækja og landbúnaðar.
Jónas Kristjánsson
DV