Velferðarríki forstjóra

Greinar

Ísland er frávik frá samkeppnishefðum Vesturlanda, sem verið er sem óðast að taka upp í Austur-Evrópu. Hér ræður ekki úrslitum um gengi fyrirtækja, hvort þau eru vel rekin frá hefðbundnu sjónarmiði samkeppninnar, heldur hvaða aðstöðu þau hafa gagnvart kerfinu.

Til dæmis eru kvótar af ótal tagi dæmigerðir fyrir Ísland, en eitur í beinum hagkerfis Vesturlanda. Hér fer orka stjórnenda fyrirtækja fremur í að útvega kvóta en í að bæta reksturinn. Enda þurfa þeir síður að bæta reksturinn, þegar þeir hafa tryggt sér kvóta.

Sem dæmi ná nefna, að landbúnaðarráðherra hyggst skera niður samkeppni í innflutningi á kartöflum með því að skammta fyrirtækjum magn til innflutnings. Það þýðir, að fyrirtækin þurfa mun síður en ella að keppa um hylli fólks með lágu verði, því að þau hafa kvóta.

Annað dæmi er frægt. Til að skera niður samkeppni í flugi skammtar ríkið flugfélögum áætlunarleiðir. Það þýðir, að lífsbarátta flugfélaga snýst meira um að útvega sér flugleiðir hjá kerfinu fremur en að bæta reksturinn, enda þýðir lítið að bæta rekstur, ef kvóta vantar.

Fiskveiðar Íslendinga eru meira eða minna stundaðar í vítahring kvótans. Með kvótanum eru hæfir skipstjórar með duglegar áhafnir á heppilegum skipum sendir í land meðan hinir lakari eru að ljúka kvótanum sínum. Þetta er augljós jöfnun aðstöðu í átt til fátæktar.

Það var einmitt svona, sem þjóðir Austur-Evrópu urðu fátækar. Allt var jafnað með kvótum og reglum, skömmtun og úthlutun, unz hagkerfið hrundi og taka varð að nýju upp síungar samkeppnishefðir Vesturlanda. Og svona erum við nú að brjótast til fátæktar.

Heil atvinnugrein stendur og fellur með aðstöðu, sem hún hefur komið sér í hjá hinu opinbera. Ríkið kaupir allt kindakjöt og alla mjólk í landinu, ef þetta er framleitt innan kvótans, og tryggir vinnslustöðvum ákveðið verð, sem er gersamlega óháð markaðslögmálum.

Ef forstjórar fyrirtækja geta ekki náð í kvóta, er einn vænzti kosturinn að hafa með sér einokunarsamtök á borð við Samband íslenzkra fiskframleiðenda til að standa vörð gegn hugsanlegri samkeppni og þrýsta á ríkisvaldið að halda uppi hinu íslenzk-austræna kerfi.

Önnur leið forstjóra er að nýta fyrirgreiðslukerfi byggðastefnunnar. Mörg dæmi eru um, að rekstri, sem engin forsenda er fyrir, er komið upp á stöðum, þaðan sem róa má á mið ýmissa sjóða, er ríkið hefur komið upp til að skammta aðgang að takmörkuðu lánsfé.

Dæmigerður stjórnandi fyrirtækis á Íslandi er ekki athafnamaður. Hann er sérfræðingur í að nota kerfið. Hann kann á kvóta, einokunarsamtök, byggðastefnu, ríkið. Hann er eins og stjórnendur, sem nú standa ráðþrota í Austur-Evrópu gegn köldum markaðsbyljum.

Að undirlagi allra stjórnmálaflokka og með fullri vitund og vilja almennings í landinu hefur verið búið til hér á landi eins konar gróðurhúsakerfi, þar sem alls konar annarleg atriði skipta meira máli en hin hefðbundnu markaðs- og rekstrarlögmál Vesturlanda.

Ástandið er svo alvarlegt, að mikill hluti Íslendinga er sannfærður um, að vextir séu of háir og eigi að miðast við greiðslugetu. Víða halda stjórnendur meira að segja, að fjármagnskostnaður fyrirtækja sinna sé utan aðkomandi afl, eins konar þruma úr heiðskíru lofti.

Fráhvarf Austur-Evrópu frá íslenzk-austrænu hagkerfi yfir í vestrænt hefur lítil áhrif á þá íslenzku sannfæringu, að hér megi áfram reka velferðarríki forstjóra.

Jónas Kristjánsson

DV