Ríkisstjórnin telur sig þurfa að auka skuldabyrði þjóðarinnar í útlöndum um eina þrjá milljarða til að mæta halla ríkissjóðs á þessu ári og þar á ofan auka skattabyrði þjóðarinnar um eina fjóra milljarða á næsta ári til að mæta halla, sem annars yrði á því ári.
Hinn illa stæði ríkissjóður er hins vegar jafnan fullur af ímynduðu fé, þegar kosta þarf ýmis gæluverkefni eða ráðherrar þurfa að sýna örlæti sitt á annarra manna fé. Hann hefur að meira eða minna leyti verið gerður ábyrgur fyrir hinum nýja sjóði Stefáns Valgeirssonar.
Það fer því vel á, að hinn nýi fjármálaráðherra hefur í beinni útsendingu í sjónvarpi lýst yfir hamslausri aðdáun sinni á Stefáni Valgeirssyni. Má nú búast við, að myndir af Stefáni verði settar upp hjá Alþýðubandalaginu, þar sem áður voru myndir af Marx og Lenín.
Athyglisvert er, að fyrrverandi og núverandi handhafar ríkisvaldsins telja eðlilegt, að hinn galtómi ríkis sjóður veiti á hverju ári ýmis fríðindi, er nema miklu fleiri milljörðum en þeim, sem nú á að útvega með því að auka skuldabyrði og skattabyrði þjóðarinnar.
Einna hæst ber þar ríkisábyrgðirnar, sem gera gæludýrum kleift að fá lán á 23% lægri vöxtum en ella. DV hefur lauslega reiknað, að ríkið hafi með ábyrgðum sínum gefið margvíslegum forgangsaðilum kerfisins vaxtamun upp á 15 milljarða króna eða þar um bil.
Ríkisábyrgðir eru einn af mikilvægustu þáttum þess, sem kallað hefur verið velferðarríki fyrirtækjanna. Hér á landi hefur komizt í vana, að ríkið hafi ekki efni á að reka velferðarríki almennings, af því að það er svo önnum kafið við að borga velferðarríki atvinnulífsins.
Annar þungbær þáttur örlætis hins magnþrota ríkissjóðs er rétturinn, sem mönnum er veittur til að framleiða búvöru, er almenningur vill ekki kaupa á framleiðsluverði. Ríkið hefur sjálft metið þennan rétt til fjár með því að bjóðast til að kaupa hann til baka.
Ef ríkið keypti allan framleiðslurétt búvöru á því verði, sem það hefur sjálft auglýst, mundi það kosta ríkissjóð 13 milljarða króna eða svipaða upphæð og ríkisábyrgðirnar. Það er verðmæti gjafarinnar, sem felst í að bændum er leyft að framleiða upp í fullvirðisrétt.
Þriðji þátturinn af þessari stærðargráðu er kvótinn í fiskveiðum. Með kvótanum er eigendum ákveðinna skipa afhentur réttur til að veiða svo og svo mikið af fiski á ári. Ríkið afhendir þeim þennan rétt, en ekki sveitarfélögum, sjómönnum eða þjóðinni í heild.
Kvótinn í fiskveiðum gengur kaupum og sölum eins og kvótinn í landbúnaði og kvótinn í ríkisábyrgðum. DV hefur reiknað út lauslega, að markaðsverð fiskveiðikvótans í heild sé um sex milljarðar á ári. Þessu fé fórnar ríkið með því að selja ekki veiðileyfi sjálft.
Sex milljarðarnir eru árvissir. Ekki hefur verið reiknað, hvert sé langtímavirði kvótans, eins og það endur speglast í mismun á söluverði skipa eftir kvótanum, sem þeim fylgir. En öruggt er, að það nemur ekki lægri upphæð en fer í ríkisábyrgðir og fullvinnslurétt.
Fyrir almenning, sem nú borgar skatta, og börn, sem síðar borga þjóðarskuldir, hlýtur að vera forvitnilegt að sjá örlætið á annarra fé, sem fyrri og síðari ríkisstjórnir sýna, þegar þær útdeila ókeypis kvótum og ábyrgðum, er nema alls tugum milljarða að verðmæti.
Örlæti ríkisstjórnarinnar kemur þessa dagana fram í þriggja milljarða aukningu á skuldabyrði þjóðarinnar og fjögurra milljarða aukningu á skattabyrði hennar.
Jónas Kristjánsson
DV