Velgengni í sjávarútvegi

Greinar

Þótt flest fyrirtæki í sjávarútvegi séu rekin með halla og mörg með miklum halla, eru sum rekin með hagnaði. Meðaltalstölur um afkomu í sjávarútvegi breiða yfir þá staðreynd, að mikill gæfumunur er á fyrirtækjum í þeirri grein, meiri en í flestum öðrum greinum.

Í fyrra var meðaltapið í sjávarútvegi tæplega 2%. Nítján beztu fyrirtækin voru þá rekin með rúmlega 5% hagnaði og 43 lökustu fyrirtækin með rúmlega 10% tapi. Þessar tölur sýna hyldýpi milli fyrirtækja. Þær eru úr könnun Þjóðhagsstofnunar, sem birt var fyrr í vetur.

Um þessar mundir er afkoman verri í sjávarútvegi. Meðalhallinn er kominn úr 2% upp í 5% á ári. Samt eru til fyrirtæki í sjávarútvegi, sem verða rekin með hagnaði á þessu ári eymdar og kreppu. Því má spyrja, af hverju þetta geti ekki gilt um fleiri fyrirtæki í greininni.

Einar Oddur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi, var um daginn spurður hér í blaðinu, hvernig stæði á þessum mikla gæfumun fyrirtækja í sjávarútvegi, ef finna mætti í skýringunni einhverja töfralausn fyrir þjóðfélagið.

Einar Oddur benti á mismunandi skip, mismunandi aðstæður, mismunandi fólk, mismunandi heppni og mismunandi forstjóra. Hann lagði áherzlu á, að gæfan í sjávarútvegi væri yfirleitt ekki kyrr á sama stað. Vel væri farið að ganga á Akureyri en lakar í Hornafirði.

Einar Oddur skýrði langvinna velgengni Útgerðarfélags Akureyringa með því, að fyrirtækið hefði fyrir rúmum þremur áratugum fengið tvo ágæta framkvæmdastjóra. Þeir hefðu komið fyrirtækinu í jafna og mikla vinnslu og smám saman safnað upp miklu eigin fé.

Eðlilegt er að telja lausn vandans í sjávarútvegi felast í að kvóti og rekstur renni smám saman til þeirra fyrirtækja, sem hafa svo hæfa forstjóra, að þeim græðist jafnvel fé á kreppuárum. Sala á kvóta þurfi að vera frjáls, svo að þessi tilflutningur verði sem örastur.

Mönnum verður tíðrætt um gæfu í sjávarútvegi og tala þá gjarna um gæfuna sem eitthvert náttúrulögmál, er komi að utan og ofan. Þess vegna sagði Einar í viðtalinu við DV, að ekki þýddi að láta sjávarútveginn renna til þeirra fyrirtækja, sem bezt ganga á hverjum tíma.

Hitt mun sönnu nær, að hver er sinnar gæfu smiður. Vandræði sjávarútvegs felast einmitt að töluverðu leyti í, að hann er rekinn af mönnum, sem ráða ekki við verkefni sitt. Í fámennu þjóðfélagi er skortur á hæfum mönnum, sem geta rekið sjávarútvegsfyrirtæki með hagnaði.

Um tuttugu sjávarútvegsfyrirtæki standa upp úr. Ef fimmtíu lökustu fyrirtækin væru ekki að flækjast fyrir og taka upp dýrmætan kvóta, væri líklega hægt að reka um þrjátíu sjávarútvegsfyrirtæki á landinu með sæmilegum hagnaði. Ef til væru þrjátíu hæfir forstjórar.

Svo vel vill til, að góðu fyrirtækin tuttugu í sjávarútvegi eru í öllum landshlutum. Helzt er, að sterk fyrirtæki vanti á Snæfellsnes, Vestfirði sunnanverða, í Hornafjörð og í Norður-Þingeyjarsýslu. Ef hægt væri að fjölga góðu fyrirtækjunum í þrjátíu, gætu sum þeirra verið þar.

Ef sala á kvóta væri gefin alveg frjáls, væri flýtt fyrir þeirri þróun, að kvótinn safnaðist til þeirra fyrirtækja, sem standa á beztum grunni og eru bezt rekin. Þetta felur í sér mikla röskun, en hún er óhjákvæmileg, ef menn vilja reisn í sjávarútvegi, hornsteini þjóðfélagsins.

Ef gæfan snýr baki við einhverju hinna góðu fyrirtækja, er annaðhvort skipt um forstjóra eða annað fyrirtæki kemur til skjalanna. Hver er sinnar gæfu smiður.

Jónas Kristjánsson

DV