Vélræn grimmd.

Greinar

Hin vélræna grimmd sovézka kerfisins kom greinilega í ljós á fimmtudaginn. Þá voru 269 manns myrtir um borð í farþegaþotu á þann hátt að sovézk stríðsþota “eyddi” henni með eldflaug.

Þetta einstæða fjöldamorð verður ekki skilið, nema menn átti sig á kerfinu, sem liggur að baki. Þetta kerfi er ekki neitt venjulegt þjóðskipulag, heldur öflug stríðsvél með innilokunaræði.

Nógur tími var fyrir sovézku morðingjana að átta sig á, að skotmarkið var farþegaþota, en ekki njósnaþota, enda komu þeir svo nálægt, að þeir gátu séð það með berum augum.

Innilokunaræði stríðsvélarinnar er svo algert, að hún reynir að hneppa í varðhald alla þá íbúa ríkisins, sem ekki hafa nákvæmlega sömu skoðun og valdhafarnir á hverjum tíma.

Friðarsinnar eru teknir fastir, af því að stjórnin og flokkurinn eru einfær um að stunda friðarstefnu. Friðarsinnar eru aðeins nothæfir á Vesturlöndum, en ekki í sæluríki friðarins.

Innilokunaræði stríðsvélarinnar er svo algert, að þeir eru hreinlega taldir geðveikir, sem ekki hafa nákvæmlega sömu skoðun og valdhafarnir á hverjum tíma.

Slíkir menn eru settir á geðveikrahæli, þar sem dælt er í þá eiturlyfjum til að brjóta þá andlega. Hvar sem finnst ögn af sjálfstæðri hugsun, þá skal henni eytt eins og farþegaþotunni.

Hin vélræna grimmd stríðsvélarinnar kemur einnig greinilega í ljós í tregðu sovézkra stjórnvalda við að hleypa fólki úr landi og leyfa fjölskyldum að sameinast. Í kerfinu örlar hvergi á mannúð.

Jafnskjótt og einhver biður um að fá að flytjast af landi brott, er hann rekinn úr starfi og neitað um vinnu. Um leið eru hafnar ofsóknir gegn honum og hans nánustu.

Morðið á 269 manns var ekki einkaframtak geðveiks stríðsmanns. Sovézki morðinginn fór nákvæmlega eftir fyrirmælum af jörðu niðri. Fyrst var honum sagt að miða og síðan að skjóta. Þetta var endurtekið þrisvar sinnum.

Það er kerfið sjálft, sem er sjúkt, en ekki fjöldamorðinginn einn, sem fór bara eftir fyrirmælum. Það er sovézka stríðsvélin, sem þolir engin nágrannaríki án þess að kúga þau.

Þannig hefur vélræn stríðsvélin lagt undir sig Austur-Evrópu og er nú að leggja undir sig Afganistan. Hún skilur ekkert nema valdið nakið. Og hún hefur kláða í gikkfingrinum.

Í hvert skipti, sem friðarsinni opnar munninn á Vesturlöndum, lítur Sovétstjórnin á það sem enn eina sönnun þess, að Vesturlönd muni bogna og játast undir valdið, bara ef hún hafi meira úthald og gefi hvergi eftir.

Friðarhreyfingin á Vesturlöndum styrkir þá forlagatrú stríðsvélarinnar, að hún muni sigra heiminn, svo sem segir í biblíu Leníns. 269 manns í þotu skipta engu máli í svo víðfeðmri hugsjón.

Eitt einkenna innilokunaróðu stríðsvélarinnar er að undirrita alls konar samninga við önnur ríki án þess að taka meira mark á slíku en eigin stjórnarskrá. Þannig undirritaði hún mannréttindaákvæði Helsinki-samningsins.

Hin illræmda leyniþjónusta Sovétríkjanna er um það bil að taka öll völd í stríðsvélinni. Höfundur innrásarinnar í Ungverjaland og geðveikrahæla fyrir andófsmenn er kominn í æðsta valdasess. Það er sjálfur Andropov.

Fjöldamorðið á fimmtudaginn er bara eitt dæmi af mörgum um hina vélrænu grimmd stríðsvélar með innilokunaræði.

Jónas Kristjánsson.

DV