Venjulegar vífilengjur

Greinar

Þegar hin nýja stefnuskrá félagshyggjuflokkanna er skoðuð, þarf að hafa í huga, að slík gögn eru ekki lykilþáttur í lífi íslenzkra stjórnmálaflokka, enda hafa íslenzkir kjósendur almennt ekki miklar áhyggjur af mismun slíkra gagna og gerða flokkanna í valdastólum.

Sem dæmi má nefna, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins og fjölmargir óháðir kjósendur eru hjartanlega sáttir við, að flokkurinn styðji frjálsa og óhefta samkeppni í stefnuskrá, en vinni í ríkisstjórn að útgáfu sérleyfa, einkaleyfa og annarra fríðinda og forréttinda.

Almennt eru kjósendur ekki í hlutverki frjálsborins borgara, þegar þeir styðja stjórnmálaflokk, heldur í hlutverki fylgisveins. Þeir styðja flokk á sama hátt og þeir styðja fótboltafélag á borð við Manchester United, vilja að hann skori mörk og sé ekki í vífilengjum.

Í tilviki Sjálfstæðisflokksins er ekki einu sinni hægt að lesa úr stefnuskránni almenna staðsetningu flokksins í hinu pólitíska mynztri. Í gerðum annarra flokka hefur stundum og stundum ekki verið unnt að finna tón, sem minnir óljóst á texta í stefnuskrám þeirra.

Sameinaða félagshyggjuframboðið hefur vaðið fyrir neðan sig, þegar það vill ræða Evrópusambandið á kjörtímabilinu, en ekki ganga til liðs við það fyrr en að undangenginni skoðanakönnun. Þetta er heiðarleg yfirlýsing um, að framboðið sé ráðþrota í málinu.

Framboðið hefur líka vaðið fyrir neðan sig, þegar það segir Bandaríkjamenn sjálfa hafa áhuga á að losna frá Keflavíkurvelli og að styðja beri þá í slíkri viðleitni þeirra, þó með tilliti til atvinnuhagsmuna á Suðurnesjum. Með þessu vísar framboðið málinu frá sér.

Það er fáránlegt af bjálfa í Atlantshafsbandalaginu að nafni Klaus-Peter Klaiber og utanríkisráðherra Íslands að vera sammála um, að þetta feli í sér eitthvert endurvakið gegnherílandi. Þvert á móti er þetta eindreginn stuðningur við stefnu ríkisstjórnarflokkanna.

Utanríkisráðherra er bara að reyna að slá ókeypis keilur í pólitíkinni. En maðurinn frá NATÓ er tvíheimskur. Í fyrsta lagi skilur hann ekki umræðuefnið. Í öðru lagi kemur honum það ekki við. En við skiljum betur rækilegar ógöngur NATÓ í Bosníu og Kosovo.

Framboðið reynir að róa konur, sem ekki líta á sig sem eins konar fylgistúlkur Manchester United með því að kasta fram sérstöku jafnréttisráðuneyti og tólf mánaða fæðingarorlofi. Þegar til kastanna kemur, verður hvorugt loforðið efnt. Við skulum bara veðja.

Framboðið reynir að skilja á milli sín og annarra flokka svo og vinstri flokks Steingríms Sigfússonar með því að vilja láta taka gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Þetta kann að verða táknið, sem óháðir kjósendur muna eftir í kjörklefanum.

Framboðið reynir að slá vopnin úr höndum vinstri flokks Hjörleifs Guttormssonar með því að minna á skyldur ríkisins við Kyoto-bókunina, sem undirrituð hefur verið og kemur í veg fyrir geigvænlega stóriðju og frekari yfirgang Landsvirkjunar á hálendinu.

Auðvitað vill framboðið svo, að allir hafi það gott, séu á góðu kaupi, fái áfallahjálp á sjúkrahúsum og aðgang að sérstökum umboðsmanni sjúklinga, borgi ekkert fyrir menntun og fái félagslegar íbúðir. Það ætlar svo að kanna á næstunni, hvað góðviljinn muni kosta.

Samkvæmt fyrri reynslu er líklegt, að kjósendur taki hóflegt mark á öllu þessu. Helst er líklegt, að þeir staðnæmist við loforðið um auðlindaskattinn.

Jónas Kristjánsson

DV